[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÁKARL varð 10 ára dreng, David Peltier, að bana í fyrradag í Virginíu í Bandaríkjunum. Var drengurinn að leika sér í mittisdjúpu vatni við ströndina er hákarlinn, meira en tveggja metra langur, réðst á hann.

HÁKARL varð 10 ára dreng, David Peltier, að bana í fyrradag í Virginíu í Bandaríkjunum. Var drengurinn að leika sér í mittisdjúpu vatni við ströndina er hákarlinn, meira en tveggja metra langur, réðst á hann. Lést hann nokkru síðar af sárum sínum og blóðmissi. Réðst hákarlinn líka á föður drengsins en honum tókst að lemja hann frá sér. David Peltier er sá fyrsti, sem deyr eftir hákarlsárás á þessu ári, en þær hafa þó verið óvanalega margar, um 40 um allan heim og þar af 28 á Florida. Sjaldgæft er hins vegar, að hákarlar ráðist á fólk við Virginíustrendur.

Glæpaalda í Frakklandi

OFBELDISGLÆPIR eru að verða helsta deiluefnið í frönskum stjórnmálum, ekki síst eftir atburði sunnudagsins þegar smáþjófur, Safir Bghioua, varð rúmlega sjötugum öryggisfulltrúa í smábæ í Frakklandi að bana. Fór hann um skjótandi og rænandi í 12 tíma, sprengdi meðal annars upp lögreglubíl og skaut á lögreglustöðina áður en hann bauð lögreglumönnunum til skotbardaga í sýningarmiðstöð í bænum. Þar var hann sjálfur skotinn. Hægrimenn í Frakklandi segja þetta sýna vel "linkind" Lionels Jospins forsætisráðherra í baráttunni við glæpamenn og atburðurinn hefur nú þegar orðið vatn á myllu þeirra, sem berjast gegn innflytjendum. Bghioua var frá Norður-Afríku og auglýsti sjálfan sig sem "son Allah og stríðsmann íslams".

Innflytjendur valda ólgu

FYRIRÆTLANIR franskra stjórnvalda um að koma upp öðrum búðum fyrir hugsanlega innflytjendur rétt við Ermarsundsgöngin hafa vakið reiði í Englandi. Í síðdegisblöðunum eru þær kallaðar "hneyksli" og sagt, að með því sé í raun verið að benda flóttafólki á að laumast til Bretlands. Um síðustu helgi reyndu um 100 manns að komast þangað ólöglega um göngin en lögreglan kom í veg fyrir það.

Sprenging í Grosní

ÖFLUG sprengja sprakk í helstu stjórnarráðsbyggingunni í Grosní í Tsjetsjníu í gær. Varð sprengingin einum manni að bana en æðsti maður stjórnarinnar, Akhmad Kadyrov, sem skæruliðar kalla lepp Rússa, slapp ómeiddur. Hafa honum verið sýnd mörg banatilræði og skæruliðar hafa sett mikið fé honum til höfuðs.