Nokkuð  hefur verið um uppsagnir hjá tæknifyrirtækjum  undanfarið  vegna samdráttar, en talið er nauðsynlegt að aðlagast markaðsaðstæðum þannig.
Nokkuð hefur verið um uppsagnir hjá tæknifyrirtækjum undanfarið vegna samdráttar, en talið er nauðsynlegt að aðlagast markaðsaðstæðum þannig.
ALLMÖRG fyrirtæki í upplýsinga- og tæknigeiranum hafa verið að segja upp starfsfólki á undanförnum dögum og vikum.

ALLMÖRG fyrirtæki í upplýsinga- og tæknigeiranum hafa verið að segja upp starfsfólki á undanförnum dögum og vikum. Þetta bætist við uppsagnir sem þegar hafa orðið í þessum geira fyrr á árinu eins og til að mynda hjá Aco-Tæknival en samkvæmt samkomulagi Tæknivals og Aco um sameiningu félaganna tveggja þá var ætlunin að fækka starfsmönnum úr 270 í ársbyrjun í 200 á árinu. Þá er og ljóst að eitthvað hefur verið um beinar launalækkanir í tæknigeiranum þótt erfitt sé að henda reiður á hversu miklar þær hafi verið.

Öllum talsmönnum þeirra fyrirtækja, sem Morgunblaðið ræddi við, ber saman um að vegna breyttra aðstæðna á markaði hafi reynst nauðsynlegt að fækka fólki og grípa til almennra aðhaldsaðgerða á öðrum sviðum. Um annað sé ekki að ræða. Flestir taka fram að ekki hafi verið um auðvelda ákvörðun að ræða, ekki síst í þeim tilvikum þegar menn hafi neyðst til þess að segja upp hæfu og traustu starfsfólki.

Nauðsynlegt að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum

Holberg Másson, stjórnarformaður Netverks, segir að hjá Netverki hafi starfsmönnum verið fjölgað töluvert á fyrriparti ársins eða um fimmtán talsins þar sem þá hafi menn verið að ljúka ýmsum verkefnum. Hugmyndin hafi verið sú að þegar þeim verkefnum lyki yrði starfsmönnum fækkað aftur. "Við höfum verið að framkvæma það og horfa á aðstöðuna á þeim mörkuðum sem við erum að vinna á. Við töldum okkur sjá fram á að það tæki lengri tíma að afla tekna frá fyrirtækjum á fjarskiptasviði en gert var ráð fyrir. Við þessu verðum við að bregðast og segjum því upp fleiri starfsmönnum en þessum fimmtán, bæði hér heima og erlendis."

Steingrímur Ólafsson hjá Oz segir að starfsmönnum hafi vitaskuld fækkað við lokun starfseminnar í Svíþjóð. Ekki hafi verið um neinar uppsagnir að ræða hér heima og jafnvel frekar reiknað með að bætt verði við starfsfólki.

Sárgrætilegt að þurfa að segja upp góðu fólki

Benedikt Svavarsson, framkvæmdastjóri Kveikis, segir að níu starfsmönnum af 27, eða hátt í þriðjungi, hafi verið sagt upp fyrir helgina. "Við vorum aðallega að fækka forriturum en ætlum að einbeita okkur að ráðgjöf í tengslum við vefinn, sem hefur verið okkar styrkur, og gagnvirka hönnun. Við verðum áfram með forritara til þess að leysa slík verkefni. En því miður þurftum við að segja upp færu fólki og góðum félögum, það er það sárgrætilega í þessu. En þetta þurfti að gera svo fyrirtækið gæti átt sér framtíðargrundvöll. Menn verða að aðlaga sig aðstæðum á hverjum tíma og við munum einnig auka samstarfið við móðurfélagið, sem er EJS, til þess að nýta samlegðarmöguleika og einbeita okkur að því sem við getum best. Uppsagnirnar eru hluti af stærri skipulagsbreytingum hjá okkur. "

Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri Zoom, segir að félagið hafi nýlega sagt upp sex manns með þriggja mánaða fyrirvara. Starfsmenn Zoom séu 19 til 20 talsins. "Þetta eru einfaldlega viðbrögð við ástandi á markaðinum og vonandi getum við endurskoðað það ef aðstæður breytast. En við urðum að bregðast við. Þess ber þó að geta að við vorum ekki nema 15 til 16 í upphafi ársins og erum því fleiri nú en þá."