Hannes Jónsson
Hannes Jónsson
Öllu sæmilega skynbæru fólki, segir Hannes Jónsson, ætti að vera ljóst að með öllum þessum stóru ókostum væri ESB-aðild of dýru verði keypt.

EKKI geri ég ágreining við það sjónarmið Sigurðar Ólafssonar í Mbl. 21.8. að umræðan um Evrópumál verði að byggjast á vel ígrunduðum rökum. Hins vegar fellst ég ekki á órökstuddar fullyrðingar hans um að samkvæmt Nice-samþykktinni verði "heildaratkvæðafjöldi í ráðherraráðinu líklega 345 atkvæði, ekki 342" en hámarkstala þingmanna Evrópuþingsins 732, ekki 738. Að vísu breytir þessi munur ekki meginatriðinu um áhrifaleysi okkar innan ESB, ef til kæmi. Hugsanleg 3 atkvæði Íslands af 342 eða 345 og 732 eða 738, sama hvorar tölurnar yrðu notaðar, eru hvort sem er tákn um algjört áhrifa- og valdaleysi okkar innan klíkuveldis ESB-báknsins. Tölur mínar eru í samræmi við frumheimildir Reuters-fréttastofunnar frá ESB í lok Nice-ráðstefnunnar sem sendar voru út í fréttaskeyti 11. 12. 2000 og birtar á bls. 33 í Mbl. 12. desember. Telji Sigurður þær ekki réttar verður hann að þrasa við Reuter og Mbl. um þær, ekki mig.

Bollaleggingar Sigurðar, um hvernig Ísland myndi vinna innan ESB-klíkuræðisins til að hafa þar áhrif og sækja stuðning við sína hagsmuni með bónbjörgum, eru vægast sagt léttvægar og sýna fyrst og fremst að hann hefur ekki reynslu af að fara með umboð ríkis í fjölþjóða- eða alþjóðasamstarfi. Þar mótast afstaða ríkja af þröngum hagsmunum, ekki góðsemi, eins og t.d. afstaða Finna og Svía gegn hagsmunum Íslands á nýafstöðnum fundi hvalveiðiráðsins sýnir svo ljóslega. Í alþjóðasamstarfi verðum við að finna bandamenn sem tengja sína hagsmuni okkar hagsmunum. Slík hagsmunatengsl er grundvallarreglan sem gildir í fjölþjóða- og alþjóðasamstarfi, svo sem landhelgisbarátta okkar 1952-76 er gott dæmi um.

Ég sleppi að ræða ýmis aukaatriði og ímyndaða meira og minna óraunhæfa undanþágumöguleika í máli Evrókrata. En grein Sigurðar gefur tilefni til að við skoðum stóru ókosti ESB-aðildar.

Fyrst, ein af grundvallarreglum þjóðaréttarins er fullveldisjafnrétti ríkja. Samkvæmt henni eru öll sjálfstæð og fullvalda ríki, smá eða stór, jafnrétthá í alþjóðasamskiptum. Þess vegna höfum við sama atkvæðavægi innan SÞ og Bandaríkin, Kína, Rússland og öll önnur aðildarríkin. Á reglunni byggist skipulag SÞ og sérstofnana þeirra og reyndar flestra fjölþjóða- og alþjóðastofnana. Undantekningin er ESB. Þeir úthýstu fullveldisjafnréttinu. Þar hefur atkvæðavægið verið misjafnt, frá 2 upp í 10, og verður áfram misjafnt, frá 3 upp í 29, innan æðstu valdastofnunarinnar, ráðherraráðsins. Réttindaskerðing sem þessi er gagnstæð gildandi þjóðarétti og gagnstæð hagsmunum smáríkja eins og Íslands.

Næst kemur að ESB-aðild fæli í sér frekari fullveldisskerðingu en við létum yfir okkur ganga með EES-samningnum (og þykir mörgum meira en nóg) þar sem laga- og reglugerðafargan ESB nær yfir fleiri svið en EES.

Þriðja stóra málið er að við yrðum að fórna fullveldi okkar til þess að gera sjálfstæða viðskipta- og tollasamninga við önnur ríki, eins og t.d. Bandaríkin, Japan ofl., en afhenda ESB þetta vald, samanber t.d. skyldu nýju umsóknaraðildarríkjanna til þess að falla frá fríverslunarsamningunum við okkur og EFTA en ganga inn í samninga ESB sem yfirtekur samningsrétt þeirra.

Fjórða, við yrðum að afhenda ESB fullveldisrétt okkar í sjávarútvegsmálum með því að undirgangast sjávarútvegsstefnu þeirra, afsala til þeirra ákvörðunarvaldi í lífshagsmunamáli okkar, veita þeim yfirstjórn kvótaákvarðana og úthlutunar veiðileyfa úr íslenskum fiskimiðum. Árangursrík landhelgisbarátta okkar færi þá fyrir lítið. Einnig yrðum við að afsala til þeirra fullveldinu til að gera sjálfstæða sjávarútvegssamninga við önnur ríki, t.d. Grænland, Færeyjar, Noreg o.fl.

Öllu sæmilega skynbæru fólki ætti að vera ljóst að með öllum þessum stóru ókostum væri ESB-aðild of dýru verði keypt.

En fleira kemur til. Gerðum við þau mistök að gerast aðilar, fengjum við það ekki ókeypis.

Samkvæmt gildandi aðildargjaldaformúlu yrði árgjald okkar á bilinu 8-13 milljarðar króna en myndi hækka verulega við væntanlega fjölgun fátækari A-Evrópuríkja í ESB. Þessa peninga gætum við notað betur í annað.

Hitt er líka umhugsunarefni, að engin trygging er fyrir því að aðild fæli í sér frekari tollalækkanir fyrir okkar sjávarafurðir. Ástæðan er sú að viðskipti með sjávarafurðir eru utan fríverslunar fjórfrelsisins. Um þær yrði að gera sérsamning. Allt er því í óvissu um frekari tollalækkanir af sjávarafurðum, ef til aðildar kæmi.

Mér fannst athyglisvert að Uffe Elleman-Jensen, fv. utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í spurningatíma á fundi Dansk-íslenska verslunarráðsins 8. ágúst sl. að "ESB myndi hagnast á aðild Íslands". Það er rétt. En við myndum stórtapa.

Höfundur er félagsfræðingur og fv. sendiherra.