MIÐVIKUDAGINN 5. september kl. 18:15 verður fyrsti fundur nýstofnaðs Rótarýklúbbs í Grafarvoginum. Fundarstaður klúbbsins hefur verið valinn og verða fundir í Grafarvogskirkju í hverri viku, á miðvikudögum kl. 18:15.

MIÐVIKUDAGINN 5. september kl. 18:15 verður fyrsti fundur nýstofnaðs Rótarýklúbbs í Grafarvoginum. Fundarstaður klúbbsins hefur verið valinn og verða fundir í Grafarvogskirkju í hverri viku, á miðvikudögum kl. 18:15. Klúbburinn hefur komið sér upp heimasíðu á slóðinni www.rotary.is/grafarvogur þar sem finna má dagskrá, félagatal, fundargerðir, fréttir og hvað Rótarýhreyfingin stendur fyrir. Dagskráin er fjölbreytt og eru áhugasamir boðnir velkomnir til að kynna sér starfsemi klúbbsins á ofangreindri vefslóð.

Rótarýklúbbur Reykjavík - Grafarvogur byrjar starfsemi sína með 22 stofnfélögum. Nú eru á Íslandi starfandi 29 Rótarýklúbbar með yfir 1.100 rótarýfélaga en samtökin eru alþjóðleg og starfa í rúmlega 160 þjóðlöndum. Heildarfélagatala er um 1,2 milljónir og stendur hreyfingin fyrir mannúðarstarfi og hvetur til góðvildar og friðar. Klúbbarnir eru starfsgreinaklúbbar og veljast í þá menn og konur sem skara framúr og eru leiðandi í sinni starfsgrein. Eitt af markmiðum hreyfingarinnar er að kynna fólk og auka með því samkennd og þekkingu á starfsgreinum annarra félaga og því er aðeins einn úr hverri starfsgrein í hverjum klúbbi, segir í fréttatilkynningu.

Fyrsta stjórn Rótarýklúbbs Reykjavík - Grafarvogur, skipa eftirtaldir einstaklingar:

Arnar Pálsson forseti, Bjarni Kr. Grímsson varaforseti, Vigdís Stefánsdóttir, viðtakandi forseti, Elísabet Gísladóttir ritari, Gylfi Magnússon gjaldkeri og Pálína Ósk Einarsdóttir stallari.