KÆRUNEFND útboðsmála hefur hafnað kröfum Nýherja hf. um að stöðvað verði útboð Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar á tölvubúnaði fyrir grunnskóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

KÆRUNEFND útboðsmála hefur hafnað kröfum Nýherja hf. um að stöðvað verði útboð Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar á tölvubúnaði fyrir grunnskóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Nýherji krafðist þess einnig að ákvörðun Innkaupastofnunar um að taka tilboði Bræðranna Ormsson hf. yrði hnekkt og lagt yrði fyrir Innkaupastofnun að taka tilboði Nýherja.

Málavextir eru þeir að með útboðinu óskaði Innkaupastofnun eftir tilboðum í tölvur fyrir grunnskóla Reykjavíkur ásamt uppsetningu, þar á meðal 662 borðtölvur. Samkvæmt því sem greinir í kæru Nýherja gætti misræmis í útboðsgögnum að því er varðaði það atriði hvort stýrikerfi skyldi fylgja vélunum eða ekki.

Úrskurðarnefndin taldi m.a. ekki unnt að skýra útboðsskilmála á aðra leið en að óskað hefði verið eftir tölvum með uppsettu stýrikerfi, þó þannig að Innkaupastofnun hefði ekki talið sér skylt að greiða fyrir stýrikerfin vegna samnings síns við Microsoft.

Í úrskurði nefndarinnar segir að ekki hafi komið fram að brotið hafi verið gegn reglum um opinber innkaup við umrætt útboð og var kröfum Nýherja því hafnað.