Stefanía K. Karlsdóttir
Stefanía K. Karlsdóttir
Mikilvægt er, segir Stefanía K. Karlsdóttir, að leggja sérstaka áherslu á tungumála- og tölvukunnáttu.

VIKA símenntunar, sem er á vegum menntamálaráðuneytisins, verður haldin í annað sinn hér á landi dagana 3.-9. september. MENNT - samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla sér um skipulagningu og framkvæmd vikunnar í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar víða um land. Þema Viku símenntunar að þessu sinni er Ísland og umheimurinn - tungumál og tölvukunnátta. Markhópur hennar eru allir þeir sem vilja bæta við sig þekkingu í tungumálum og tölvukunnáttu hvort sem hún á að nýtast í atvinnulífinu, tómstundum, á ferðalögum eða í samskiptum almennt. Auk þess verður lögð áhersla á almenna hvatningu og kynningu á mikilvægi símenntunar.

Í nútíma samfélagi upplýsinga-, fjarskipta- og stafrænna tækja þar sem örar tækniframfarir og alþjóðavæðing efnahagslífsins á sér stað verður sífellt mikilvægara fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra að halda við menntun sinni og þekkingu til að vera samkeppnishæf á markaði. Vegna legu landsins og sérstöðu tungumálsins er kunnátta í erlendum tungumálum nauðsynleg hverjum Íslendingi sem ætlar að eiga samskipti við aðrar þjóðir. Því er mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á tungumála- og tölvukunnáttu, en þess má einnig geta að í ár er sérstakt Evrópskt tungumálaár.

Almenningur hvattur til þátttöku

Almenningur er hvattur til að nýta sér Viku símenntunar til að kynna sér það mikla framboð sem skólar og námskeiðshaldarar á Íslandi hafa fram að bjóða. Í nútíma þjóðfélagi er endurmenntun og símenntun mikilvægri en nokkru sinni fyrr og starfsmenn fyrirtækja eru sér mun meira meðvitandi um mikilvægi símenntunar til að standast kröfur tímans um aukna þekkingu og færni í starfi. Einstaklingar eru hvattir til að nýta sér þau fjölmörgu menntunar- og símenntunartækifæri sem bjóðast til frekari þekkingaruppbyggingar.

Fyrirtæki hvött til þátttöku

Fyrirtæki og félagasamtök verða sérstaklega hvött til að nýta sér slagkraft átaksins til að efla símenntun innan sinna fyrirtækja. Fyrirtæki í dag líta á mannauðinn sem eina af mikilvægustu auðlindunum og því er öflug símenntun starfsmanna forsenda þess að viðhalda þessari auðlind. Einn mikilvægasti hluti átaksins er Símenntunardagurinn 6. september, en fyrirtæki eru hvött til þess að tileinka þann dag fræðslumálum starfsmanna sinna og huga þá sérstaklega að tungumála- og tölvukunnáttu þeirra. Daginn geta fyrirtæki notað t.d. til að kynna starfsmönnum fræðslustefnu sína, haldið námskeið fyrir starfsmenn eða fengið námskeiðshaldara til liðs við sig til að kynna það sem boðið er upp á í tungumála- og tölvunámi.

Einnig er þetta kjörið tækifæri fyrir fulltrúa stéttarfélaga til að heimsækja fyrirtæki og kynna með hvaða hætti þau styðja við og stuðla að símenntun félagsmanna sinna.

Skólar og námskeiðshaldarar hvattir til þátttöku

Námsframboð og fræðslustarfsemi á Íslandi verður gerð sýnileg á margvíslegan hátt, í samstarfi við þá aðila sem bjóða upp á nám, fræðslu og námskeið. Vika símenntunar er því kjörinn vettvangur fyrir bjóðendur á námi að kynna sitt framboð fyrir almenningi og fulltrúum fyrirtækja. Framboð á námi og námskeiðum er mikið á Íslandi og ekki er alltaf auðvelt fyrir almenning að átta sig á framboðinu, hvaða nám eða námskeið er í boði og hvar. Því er tækifæri fyrir skóla og námskeiðshaldara að tileinka sér Viku símenntunar sem kynningarvettvang.

Upplýsingaveita um nám

MENNT er að vinna að smíði á gagnagrunni um Upplýsingaveitu um nám. Upplýsingaveitan er gagnabanki sem hýst getur allt námsframboð á Íslandi. Hægt er að leita almennt eða sértækt í gagnabankanum og bera saman framboð, verð og gæði. Upplýsingaveitan er hönnuð með einföldu notendaviðmóti þannig að mikil tölvukunnátta er ekki skilyrði til að geta notað hana. Allir sem hafa aðgang að tölvu og interneti geta tengst Upplýsingaveitunni ókeypis. Byrjað er að þróa rafrænan námsráðgjafa sem tengist Upplýsingaveitunni. Notandinn svarar nokkrum spurningum sem leiða í ljós áhuga- og færnisvið hans. Ráðgjafinn hjálpar sérstaklega þeim sem vita ekki endilega hvað þá langar til að læra.

Upplýsingaveitan mun nýtast jafnt þeim sem leita eftir námi eða námskeiði eða bjóða það. Stefnt er að því að allt nám og öll námskeið á Íslandi verði vistuð í Upplýsingaveitunni, hvort sem er í hefðbundna skólakerfinu, í einkaskólum eða fræðslustofnunum.

Markhópar Upplýsingaveitunnar eru tvenns konar. Í fyrsta lagi mun Upplýsingaveitan sérstaklega nýtast almenningi sem leitar eftir námskeiðum eða námi. Það hefur oft reynst erfitt fyrir almenning að fá upplýsingar um framboð á námi eða námskeiðum því leita þarf víða og á ólíkum stöðum. Með tilkomu Upplýsingaveitunnar getur þessi hópur leitað á einum stað eftir upplýsingum um framboð á námi eða námskeiðum á þeim stað sem þeim hentar og á því skólastigi sem það óskar eftir. Í öðru lagi er markhópur Upplýsingaveitunnar skipuleggjendur námskeiða, eins og fulltrúar símenntunarmiðstöðvanna um landið, fræðslufulltrúar stéttarfélaga og fræðslufulltrúar fyrirtækja. Þegar námskeið eru skipulögð fyrir þá einstaklinga sem halda á námskeið fyrir, er mikilvægt að hægt sé að ganga að upplýsingum um framboð á ákveðnu námi eða námskeiðum hvar sem er á landinu.

Upplýsingaveitan verður opnuð almenningi í byrjun næsta árs og með frekari þróun og viðbótum í Viku símenntunar 2002.

Vika símenntunar er kjörinn vettvangur til að koma á framfæri námskeiðum, verkefnum, góðum hugmyndum og almennri umræðu um mikilvægi símenntunar. Á vegum átaksins verður efnt til kynningarherferðar um mikilvægi símenntunar, með áherslu á tölvur og tungumál en einnig verður mikilvægi símenntunar almennt gerð góð skil. Vefsíða viku símenntunar er www.mennt.is/simenntun

Höfundur er framkvæmdastjóri MENNTAR.