Kristján Jósteinsson
Kristján Jósteinsson
Forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar hugnast betur að beita stofnanaofbeldi, segir Kristján Jósteinsson, en að fara að þeim leikreglum sem eiga að gilda í siðuðu réttarríki.

Á undanförnum árum hef ég rekið næturklúbb með tilheyrandi leyfum í húsinu Aðalstræti 4 í miðbæ Reykjavíkur. Nokkrir íbúar á svæðinu eiga erfitt með að sætta sig við þessa starfsemi og hafa allt frá öndverðu beitt áhrifum sínum til þess að knýja forsvarsmenn Reykjavíkurborgar til þess að loka staðnum. Viðbrögð stjórnenda Reykjavíkurborgar hafa einkennst af vanhugsuðum aðgerðum sem virðast eingöngu þjóna þeim tilgangi að koma til móts við umkvartanir og vanstillingu þessa fólks. Jafnframt hafa nokkrir ístöðulausir stjórnmálamenn séð sér hag í því að þyrla upp moldviðri um starfsemi næturklúbba í stað þess að beita sér fyrir því að leysa þennan ágreining með skynsamlegum hætti. Er dapurlegt til þess að hugsa að ásókn í atkvæði skuli vega þyngra á metunum í hugarheimi ráðamanna en virðing fyrir lögum og rétti og góðum stjórnsýsluháttum. Ég mun hér rekja í stuttu máli þá illskiljanlegu aðför sem Reykjavíkurborg hefur beint gegn mér persónulega, fjölskyldu minni og starfsfólki fyrirtækisins.

Fyrsta aðgerð borgarinnar fólst í því að vanrækja afgreiðslu á löglegri umsókn um áfengisveitingaleyfi og neyddist fyrirtæki mitt til þess að áfrýja sinnuleysi borgarinnar til úrskurðarnefndar um áfengismál. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri umsvifalaust að gefa út umbeðið leyfi og taldi nefndin að Reykjavíkurborg hefði brotið ákvæði stjórnsýslulaga, þ.á m. jafnræðisregluna. Reykjavíkurborg skaut ekki þessum úrskurði til dómstóla og kaus þess vegna að una niðurstöðunni. Engu að síður ákvað Reykjavíkurborg að gefa veitingastaðnum ekki umrædd leyfi og virti þar með í raun að vettugi ákvörðun stjórnskipaðrar úrskurðarnefndar.

Önnur aðgerð Reykjavíkurborgar gegn fyrirtæki mínu fólst í því að takmarka landnotkun bakhúss Aðalstrætis 4 og stöðva þar með starfsemina með breytingu á gildandi deiliskipulagi. Þessari ákvörðun borgarinnar var skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem komst að þeirri niðurstöðu að deiliskipulagsbreytingin væri ólögleg og bryti í bága við lagafyrirmæli skipulags- og byggingarlaga svo og stjórnsýslulaga. Úrskurður þessi var mjög vandaður en það hafði engin áhrif á viðhorf og afstöðu forsvarsmanna borgarinnar.

Þriðja aðgerð Reykjavíkurborgar var að höfða mál á hendur mér og fá framangreindum úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hnekkt fyrir dómstólum. Í kröfugerð borgarinnar kom fram að hún tæki nánast ekkert mark á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndarinnar sem nánast væri aðför að sjálfstæði sveitarfélaga. Lagaskilningur Reykjavíkurborgar er harla kostulegur þar sem borgin telur að hún sé hafin yfir lög og rétt og sé óbundin af þeim lagaákvæðum sem mælt er fyrir um í skipulags- og byggingarlögum svo og stjórnsýslulögum. Í lögum um skipulags- og byggingarmál er sérstaklega tekið fram að stjórnvöldum beri að virða réttaröryggi einstaklinga og lögpersóna. Afstaða Reykjavíkurborgar gagnvart mér og mínu fyrirtæki sýnir glögglega að borgin telur að ég og fyrirtæki mitt séum réttlausir aðilar og hún geti með geðþóttaákvörðunum sínum og í andstöðu við lög og rétt eyðilagt lífsviðurværi einstaklinga og upprætt löglega atvinnustarfsemi. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að fyrrnefndur úrskurður væri réttur og lögum samkvæmt og deiliskipulagsbreytingin, sem byggðist á geðþóttaákvörðun borgarinnar, felld úr gildi. Reykjavíkurborg kaus ekki að áfrýja þessari dómsniðurstöðu til Hæstaréttar og hélt ég að málið væri þar með úr sögunni, enda höfðu úrskurðarnefnd áfengismála, úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og Héraðsdómur Reykjavíkur afdráttarlaust komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðir borgarinnar væri lögleysa ein og í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti.

En Reykjavíkurborg var ekki að baki dottin og nú kem ég að því sem átt er við í fyrirsögn greinarinnar um stofnanaofbeldi en það kalla ég það ofbeldi þegar stofnanir ákveða að leggja í einelti tiltekna einstaklinga og lögaðila og misnota yfirburðavaldastöðu sína í blóra við lög og rétt. Næsta aðgerð Reykjavíkurborgar var að gefa út skert og takmarkað áfengisveitingaleyfi án minnar vitundar. Leyfið var í andstöðu við fyrrnefndan úrskurð úrskurðarnefndar um áfengismál þar sem ég fékk skemmri opnunartíma en samkeppnisaðilar mínir á svæðinu og var ákvörðunin skýrt brot á jafnræðisreglunni. Síðan ákveður Reykjavíkurborg að beita lögreglunni í Reykjavík í þessu máli í því skyni að fá neikvæða umsögn um starfsemi fyrirtækisins, þrátt fyrir að lögreglan hefði alla tíð og raunar skömmu áður gefið út jákvæða umsögn. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um þátt og vinnubrögð lögreglunnar enda hafa aðgerðir hennar verið kærðar til dómsmálaráðuneytisins og treysti ég því að hið æðra stjórnvald sjái til þess að lögreglan vinni ekki gegn réttaröryggi borgaranna eingöngu til þess að þjóna vandræðagangi stjórnenda borgarinnar.

Nýjasta aðgerð Reykjavíkurborgar gegn veitingastarfseminni er sú að breyta deiliskipulagi Grjótaþorps enn á ný og stefna þar með að því að uppræta starfsemi mína. Látið er svo líta út af hálfu borgarinnar að um heildarúttekt á deiliskipulaginu sé að ræða en ég fullyrði að markmiðið er eitt og hið sama og áður að stöðva starfsemi mína með öllum tiltækum ráðum. Athugasemdir hafa verið gerðar við þessa nýju deiliskipulagsbreytingu, enda koma ekki fram nein rök í greinargerðinni með breytingunni sem sýna fram á að skemmtistaðir eigi ekki heima í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir því að verslanir, veitingastaðir, skemmtistaðir, þjónusta og íbúðarbyggð sé blönduð á svæðinu.

Að lokum vil ég vekja athygli lesenda á því að Reykjavíkurborg hefur aldrei komið að máli við mig og falast eftir því að leysa ágreininginn á farsælan hátt fyrir alla aðila málsins. Það virðist ekki skipta neinu máli fyrir Reykjavíkurborg þótt einstaklingur hafi réttinn með sér og verji þann rétt og hafi betur fyrir úrskurðarnefndum og dómstólum. Borgin heldur áfram sínum aðgerðum hvað sem raular og tautar og treystir því að einstaklingurinn sé máttvana gagnvart yfirburða valdastöðu hins opinbera. Forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar hugnast betur að beita stofnanofbeldi en að fara að þeim leikreglum sem eiga að gilda í siðuðu réttarríki.

Höfundur er framkvæmdastjóri.