Dagný Jónsdóttir
Dagný Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir hönd Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segja Þorvarður Tjörvi Ólafsson og Dagný Jónsdóttir, bjóðum við nýnema við Háskólann velkomna.

FYRIR hönd Stúdentaráðs Háskóla Íslands bjóðum við nýnema við Háskólann velkomna. Það eru talsverð viðbrigði að koma úr framhaldsskólunum í Háskóla Íslands og það þekkja eldri nemar af eigin raun. Spurningar varðandi námsfyrirkomulag, námsmat, námslán, próftöku og annað vefjast fyrir fólki og á margan hátt virðist háskólasamfélagið hálfgerður frumskógur til að byrja með.

Þjónusta Stúdentaráðs

Stúdentaráðsliðar eru kosnir til að fara með hagsmuni allra stúdenta Háskólans. Á skrifstofu Stúdentaráðs er nemendum veitt margvísleg þjónusta. Upplýsingar varðandi réttindi stúdenta, leiguhúsnæði, lánasjóðinn eða hvað annað sem er eru veittar á skrifstofunni. Skrifstofa Stúdentaráðs er í Stúdentaheimilinu við Hringbraut og þar er opið alla virka daga frá klukkan 9:00-17:00.

Matsölustaður í Stúdentaheimilið

Stúdentaráð hafði forgöngu um það að nú hefur matsölustaðurinn Delí verið opnaður í Stúdentaheimilinu. Þetta er fagnaðarefni og hefur nú fengist aukin fjölbreytni í veitingum fyrir stúdenta og samfara mun örugglega færast meira líf í Stúdentaheimilið. Í Stúdentaheimilinu verður einnig Námsráðgjöf Háskóla Íslands til húsa og fær hún loks húsnæði sem gerir starfsmönnum hennar kleift að þjónusta alla þá stúdenta sem til hennar þurfa að leita. Sérstakt fagnaðarefni er að fatlaðir stúdentar geti komist á greiðan hátt til þess aðila sem sér um málefni þeirra innan skólans. Þetta er mikilvægur áfangi í baráttunni fyrir auknu jafnrétti innan Háskólans.

Fartölvutilboð fyrir stúdenta

Stúdentaráð skrifaði nýlega undir samninga við Nýherja og Griffil, sem bjóða munu stúdentum og starfsfólki Háskólans fartölvur á hagstæðum kjörum. Þetta gerðist í kjölfar þess að Stúdentaráð leitaði tilboða í fartölvur hjá öllum helstu tölvufyrirtækjum landsins. Stúdentaráð hvetur stúdenta til að nýta sér tilboðin og taka þannig þátt í áframhaldandi fartölvuvæðingu náms við Háskólann. Mikil þróun hefur átt sér stað í uppsetningu á þráðlausum staðarnetum innan skólans og geta stúdentar með fartölvur komist inn á Netið og inn á sitt heimasvæði í Háskólanum frá ýmsum stöðum á háskólasvæðinu þráðlaust. Þetta þráðlausa sendikerfi hefur aukið stórlega möguleika á notkun tölva við kennslu og auk þess minnkað álag á þau tölvuver sem fyrir eru.

Nýr student.is

Stúdentaráð hefur opnað nýjan frétta- og upplýsingavef fyrir nemendur Háskólans á slóðinni www.student.is. Vefurinn hefur að geyma heimasvæði Stúdentaráðs og Stúdentablaðsins, fréttir af starfi deildarfélaga auk annarra upplýsinga er varða stúdenta. Vefurinn er umfangsmikill og þar er tekið á fjölbreyttum málaflokkum sem varða nemendur við Háskóla Íslands en einnig er áhersla lögð á öflugan fréttaflutning sem gerir vefinn að lifandi miðli. Stúdentaráðið og Stúdentablaðið vilja nýta kosti vefjarins til upplýsingagjafar og samskipta í auknum mæli.

Góð tengsl við nemendur

Að lokum viljum við segja að það er gaman að vera nemandi við Háskóla Íslands. Nemendafélögin, sem skipta tugum, standa fyrir margskonar skemmtiviðburðum og Stúdentaráð sér um að gæta hagsmuna stúdenta jafnt innan Háskólans sem utan. Framundan er viðburðaríkur vetur og nú á næstunni standa Stúdentaráð og nemendafélögin í sameiningu fyrir fyrstu Nýnemavikunni. Í október höldum við upp á 90 ára afmæli Háskólans og þá verður Stúdentadagurinn haldinn í annað skipti. Góð hagsmunagæsla felst ekki síst í góðum tengslum við nemendur og hvetjum við alla stúdenta til að líta sem oftast inn á skrifstofu Stúdentaráðs. Við erum í vinnu fyrir ykkur.

Tjörvi er formaður Stúdentaráðs og Dagný framkvæmdastjóri ráðsins.