EISCH Holding SA hefur keypt hlutabréf í Keflavíkurverktökum hf. að nafnvirði kr. 32,5 milljónir.

EISCH Holding SA hefur keypt hlutabréf í Keflavíkurverktökum hf. að nafnvirði kr. 32,5 milljónir. Síðasta viðskiptaverð var 4,15 og er markaðsverðmæti bréfanna því um 134,9 milljónir króna og samsvarar 10,4% hlut, en áður átti Eisch Holding ekki hlut í Keflavíkurverktökum.

Bjarni Pálsson, viðskiptafræðingur, er eigandi Eisch Holding SA, sem skráð er í Lúxemborg. Viðskiptin fóru fram dagana 27.-30. ágúst, að því er fram kemur í tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands, og hafði Kaupthing Luxembourg milligöngu um viðskiptin.

Bjarni segist í samtali við Morgunblaðið starfa að fjárfestingum og er hann einn eigandi Eisch Holding. Félagið er eignarhaldsfélag og á hluti í íslenskum og erlendum fyrirtækjum.