TAP af rekstri dansk-íslenska netbankans Basisbank á fyrri helmingi ársins 2001 nam 24,6 milljónum danskra króna, tæplega 300 milljónum íslenskra króna. Tap síðasta árs var 58 milljónir danskra króna, sem jafngildir um 700 milljónum íslenskra króna.

TAP af rekstri dansk-íslenska netbankans Basisbank á fyrri helmingi ársins 2001 nam 24,6 milljónum danskra króna, tæplega 300 milljónum íslenskra króna. Tap síðasta árs var 58 milljónir danskra króna, sem jafngildir um 700 milljónum íslenskra króna.

Í netútgáfu Jyllands-Posten segir að hálfsársuppgjör Basisbank sé ekki uppörvandi lesning, loksins þegar bankinn hafi sent uppgjörið frá sér. Blaðið segir að bankinn geti ekki haldið taprekstri lengi áfram, einungis með hlutafé upp á 74 milljónir danskra króna eða tæpar 900 milljónir íslenskra króna. Þá segir blaðið að vinnubrögð stjórnenda bankans í tengslum við uppgjörið hafi einkennst af klúðri. Þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en á síðustu stundu, síðastliðinn föstudag, að bankanum bæri að birta hálfsársuppgjör. Skömmu áður hafi Peter Andersson, framkvæmdastjóri Basisbank, sagt í samtali við Jyllands-Posten, að bankinn þyrfti ekki að birta annað en heilsársuppgjör. Annað hafi komið á daginn.

Mikil ásókn var í viðskipti við Basisbank eftir að hann opnaði í september á síðasta ári og hafa um 22 þúsund viðskiptavinir skráð sig hjá bankanum. Jyllands-Posten segir að bankinn hafi ekki átt möguleika á að taka við þessum fjölda viðskiptavina, sérstaklega þar sem stór hluti þeirra hafi ekki notað bankann að staðaldri. Því tali Basisbank nú um virka viðskiptavini sem Peter Andersson segir að séu um 15 þúsund talsins.

Íslandsbanki er stærsti einstaki hluthafinn í Basisbank.