RÍFLEGA 1,1 milljarður króna kom í hlut meðeigenda Baugs hf. í A-Holding, þegar Baugur keypti A-Holding að fullu í maí á þessu ári og eignaðist þar með rúm 20% hlutafjár í breska smásölufyrirtækinu Arcadia Group.

RÍFLEGA 1,1 milljarður króna kom í hlut meðeigenda Baugs hf. í A-Holding, þegar Baugur keypti A-Holding að fullu í maí á þessu ári og eignaðist þar með rúm 20% hlutafjár í breska smásölufyrirtækinu Arcadia Group.

Meðeigendur Baugs í A-Holding voru fjárfestingarfélögin Gaumur og Gilding, auk Íslandsbanka og Kaupþings. Fjárfestingarfélagið Gaumur er í eigu Jóhannesar Jónssonar, stofnanda Baugs og stjórnarmanns, og fjölskyldu hans, þ.ám. Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs.

Gaumur átti 32% í A-Holding og nam söluhagnaður félagsins af viðskiptunum við Baug með Arcadia-bréfin 362 milljónum króna. Sú spurning vaknar hvort eðlilegt sé að menn sitji báðum megin borðs í viðskiptum af þessu tagi og hver lagaleg staða þeirra sé.

Jakob R. Möller hrl., sem reynslu hefur í hlutafélagarétti, segir aðspurður að ekki sé hægt að segja neitt ákveðið að svo stöddu um lagalega stöðu þeirra sem sitji báðum megin borðs í áðurnefndum viðskiptum Baugs og fjárfestingarfélagsins Gaums. "Til þess að draga ályktanir um slík viðskipti þarf fyrst að fara mjög nákvæmlega ofan í slík mál, m.a. kanna hvort stjórnarmenn í Baugi eigi persónulegra hagsmuna að gæta í viðskiptum við Gaum. En það hvarflar ekki að mér að þessir aðilar hafi gert eitthvað rangt og ég hef engar forsendur til þess að draga neins konar ályktanir af fréttinni í laugardagsblaði Morgunblaðsins einni saman."

Jakob vísar í greinar í lögum um hlutafélög sem eiga við mál af þessu tagi. Í 72. gr. segir: "Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mega ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og þeirra, um málshöfðun gegn þeim eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik."

Jakob bendir á að stjórnarmönnum í Baugi beri að gæta hagsmuna hluthafa í Baugi og ef Baugur hafi keypt bréfin af Gaumi á of háu verði til að Gaumur gæti innleyst hagnað sé það óeðlilegt. Hins vegar beri þeim sem setji slíka tilgátu fram að sanna hana þar sem sönnunarbyrðin liggi þeim megin.

Jakob bendir einnig á 95. gr. hlutafélagalaga þar sem segir að hluthafafundur megi ekki taka ákvörðun sem bersýnilega er fallin til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

"Þar sem hluthafafundur, sem er æðsta vald í hverju hlutafélagi, má ekki taka ákvarðanir af þessu tagi er ljóst að stjórnin má það ekki heldur," segir Jakob R. Möller.