Stefán Arason tónskáld.
Stefán Arason tónskáld.
VERKIÐ 10-11 fyrir píanó og strengjasveit eftir Stefán Arason hreppir Evrópsku tónskáldaverðlaunin í ár en þau eru veitt í tengslum við alþjóðlega hátíð æskuhljómsveita í Berlín. Stefán tekur við verðlaununum, 10.

VERKIÐ 10-11 fyrir píanó og strengjasveit eftir Stefán Arason hreppir Evrópsku tónskáldaverðlaunin í ár en þau eru veitt í tengslum við alþjóðlega hátíð æskuhljómsveita í Berlín. Stefán tekur við verðlaununum, 10.000 mörkum, úr hendi borgarstjórans í Berlín seinna í mánuðinum.

Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík tók þátt í alþjóðlegri hátíð æskuhljómsveita, young.euro.classic, í Berlín ágústmánuði og flutti þar verkið. Hátíðin fór fram í tónleikasal Konzerthaus am Gendarmenmarkt og voru tónleikar Strengjasveitar Tónlistarskólans 17. ágúst vel sóttir. Hátíðin er jafnframt tónsmíðakeppni, því Berlínarborg veitir um 460 þúsund króna verðlaun fyrir besta tónverk núlifandi tónskálds sem flutt er á hátíðinni, og hafa verðlaunin verið nefnd Evrópsku tónskáldaverðlaunin.

Stefán Arason lauk prófi úr tónfræðideild Tónlistarskólans í Reykjavík í vor. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að það hefði komið honum mjög á óvart að vinna til þessara verðlauna. "Ég vissi ekki einu sinni að tónleikarnir væru jafnframt tónsmíðakeppni fyrr en ég las um það í viðtali við hljómsveitarfólkið í Morgunblaðinu í sumar. En þetta var mjög gaman. Verkinu var vel tekið; mér var þakkað fyrir og það var jafnvel ókunnugt fólk að senda mér tölvupóst og þakka fyrir."

Stefán segir verkið ekki endilega sniðið að þörfum nútímamannsins, en þó sé það hnitmiðað, lítið og stutt. "Það er kannski það sem virkar. Löngu sinfóníurnar og stóru verkin eru að minnsta kosti ekki alveg "inn" núna."

Félagar Stefáns hrifnir af verkinu

Stefán segist ekki vita hvað verðlaunin gætu þýtt fyrir hann, það eigi eftir að koma í ljós. Þetta sé þó góð hvatning til að halda áfram. Verðlaunin verða afhent með viðhöfn af borgarstjóranum í Berlín, að viðstöddum gestum úr þýska menningarheiminum og tónlistarfólki.

Í viðtalinu við Morgunblaðið 24. júlí sögðu þrír nemendur í hljómsveitinni og skólafélagar Stefáns í Tónlistarskólanum; þau Ari Þór Vilhjálmsson, Ólöf Kristjánsdóttir og Stefanía Ólafsdóttir, frá verki Stefáns. "Þetta er rosalega flott verk," sagði Ólöf, og Ari bætti við: "Hann leikur sér mjög mikið með effekta og áhrif; ekki mikið um laglínur - kannski þó ein, sem gengur í gegnum verkið;" og Stefanía sagði: "Kaflarnir eru stuttir og mjög grípandi og ég get ímyndað mér að áheyrendur hlusti vel allan tímann." Það var samdóma álit þeirra þriggja, að mikið væri spunnið í verk Stefáns. Ólöf sagði það minna hana svolítið á verk Hafliða Hallgrímssonar, Poemi, sem einnig var flutt á tónleikunum og Stefanía bætti við að hún heyrði þar líka áhrif frá Arvo Pärt. Ari Þór átti síðustu athugasemdina um verkið: "Mér finnst þetta bara eitt af flottari verkum sem hafa komið úr tónfræðideildinni á síðustu árum."

Tryggvi M. Baldvinsson og Hilmar Þórðarson voru tónsmíðakennarar Stefáns í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann stundar nú framhaldsnám í tónsmíðum í Árósum í Danmörku. Verðlaunaverk hans heitir 10-11 en nafnið hefur ekkert með verslanir með sama nafni að gera heldur helgast nafngiftin af lengd verksins - það tekur um 10 til 11 mínútur í flutningi.