Lítið af varnarefnum er að finna í ávöxtum og grænmeti hérlendis.
Lítið af varnarefnum er að finna í ávöxtum og grænmeti hérlendis.
ÚT ER komin skýrsla um varnarefni í grænmeti og ávöxtum árið 2000 sem Hollustuvernd ríkisins gefur út en stofnunin hefur annast reglubundið eftirlit með magni varnarefna í ávöxtum og grænmeti frá árinu 1991.

ÚT ER komin skýrsla um varnarefni í grænmeti og ávöxtum árið 2000 sem Hollustuvernd ríkisins gefur út en stofnunin hefur annast reglubundið eftirlit með magni varnarefna í ávöxtum og grænmeti frá árinu 1991. Niðurstöður skýrslunnar benda til að ávextir og grænmeti, sem eru á boðstólum hér á landi, séu að mestu laus við varnarefni. Þegar aðskotaefni fundust í vörum var magn efnisins í langflestum tilfellum undir hámarksgildi.

Að því er fram kemur í skýrslunni eru varnarefni notuð við framleiðslu og geymslu matvæla bæði til að verja þau gegn illgresi, sveppum og meindýrum, en jafnframt til að draga úr rýrnun uppskerunnar. Hér á landi eru u.þ.b. 100 varnarefni skráð og leyfileg til notkunar, en þó er aðeins lítill hluti þeirra notaður. Ef magn varnarefna í sýni fer yfir aðgerðamörk - mestu leyfilegu frávik frá hámarksgildi vegna óvissu í sýnatöku og mælingu - er ávallt gripið til aðgerða. Þá er dreifing vörunnar stöðvuð og ef tilefni er til er vara, sem þegar hefur farið í dreifingu, innkölluð. Sýnum, sem tekin eru til rannsóknar, hefur fjölgað nokkuð síðan rannsóknir hófust og undanfarin ár hafa um 300 sýni ávaxta og grænmetis verið tekin til rannsóknar hjá Hollustuvernd á ári hverju.

Engin varnarefni reyndust vera í 60% þeirra sýna sem tekin voru til greiningar og í 38% tilvika reyndust varnarefni vera undir hámarksgildi. Í innlendu grænmeti greindust engin varnarefni í 96% tilvika og 85% innflutts grænmetis reyndust laus við aukefni. Þá reyndust 33 af hundraði innfluttra ávaxta vera lausir við varnarefni en í þeim tilfellum, sem varnarefni greindust í sýnum, voru 63% undir hámarksgildum.

Svipað og undanfarin ár

Við lestur skýrslunnar vekur athygli að magn varnarefna í grænmeti, sem ræktað er hérlendis, er mjög lítið en aðeins um 2% innihéldu varnarefni yfir hámarksgildi.

Sesselja María Sveinsdóttir, matvælafræðingur hjá Hollustuvernd, segir magn varnarefna í ávöxtum og grænmeti í íslenskum verslunum hafa verið svipað á síðasta ári og undanfarin ár.

Almennt greinist meira af varnarefnum í ávöxtum en grænmeti auk þess sem algengara er að ávextir innihaldi fleiri en eitt varnarefni í einu.

Í skýrslu Hollustuverndar er bent á að þau mörk, sem sett eru fyrir varnarefni í matvælum, eru mjög lág. Því á magn þeirra varnarefna, sem finnast í sumum matvælum, að vera langt undir því sem hugsanlega gæti verið slæmt fyrir heilsu manna. Þá er bent á að leifar þeirra efna, sem finnast í ávöxtum, eru að mestu í hýði eða berki. Því er góð regla að skola ávexti og grænmeti vel fyrir neyslu og fjarlægja ysta lagið þegar það á við.