Ásgrímur Halldórsson landar kolmunna á Seyðisfirði.
Ásgrímur Halldórsson landar kolmunna á Seyðisfirði.
KOLMUNNAAFLI okkar Íslendinga á þessu ári er orðinn um 223.000 tonn samkvæmt upplýsingum Samtaka fiskvinnslustöðva. Alls hefur verið landað um 264.000 tonnum af kolmunna hér og er hlutur útlendinga því um 41.000 tonn.

KOLMUNNAAFLI okkar Íslendinga á þessu ári er orðinn um 223.000 tonn samkvæmt upplýsingum Samtaka fiskvinnslustöðva. Alls hefur verið landað um 264.000 tonnum af kolmunna hér og er hlutur útlendinga því um 41.000 tonn. Á öllu síðasta ári varð kolmunnaafli okkar um 260.000 tonn og hafði þá aldrei orðið meiri. Samkvæmt upplýsingum SF er Hólmaborg SU enn aflahæsta kolmunnaskipið með 27.500 tonn. Börkur NK er með tæp 24.000 tonn, Jón Kjartansson SU með 21.600 og Ásgrímur Halldórsson SF með 20.500. Athygli vekur að Huginn VE er kominn með um 15.00 tonn, en hann hefur aðeins verið að veiðum frá því um mitt sumar. Veiðin hefur verið jöfn og góð undanfarnar vikur og er svo enn.

Samkvæmt upplýsingum SF hefur mestu verið landað á Eskifirði, 62.250 tonnum, næst kemur SR-mjöl á Seyðisfirði með 55.200 tonn og í þriðja sætinu er Síldarvinnslan í Neskaupstað með 52.200 tonn.

Lítil veiði hefur verið af norsk-íslenzku síldinni að undanförnu, en alls hafa 46.000 tonn veiðzt til þessa en leyfilegur kvóti er 132.000 tonn. Nú er leyfilegt að hefja veiðar á Suðurlandssíldinni og eru skipin að gera klárt fyrir þær veiðar.