MIKIÐ magn af eiturefninu PAH hefur greinst í ákveðinni gerð ólífuolíu, Diana nefnist hún og hefur hún nú verið innkölluð í 13 Evrópulöndum, m.a. Bretlandi, Noregi og Danmörku.

MIKIÐ magn af eiturefninu PAH hefur greinst í ákveðinni gerð ólífuolíu, Diana nefnist hún og hefur hún nú verið innkölluð í 13 Evrópulöndum, m.a. Bretlandi, Noregi og Danmörku. Efnið, sem við langtíma neyslu getur valdið krabbameini, hefur aðallega greinst í gæðaminni olíu sem unnin er úr hrati, þ.e. olíu sem fæst úr þriðju eða fjórðu vinnslu á ólífumauki. Gæðaminni olían hefur ekki fundist á Íslandi og hafa ráðstafanir verið gerðar til þess að innflutningur á vörunni eigi sér ekki stað, að sögn Sesselju Maríu Sveinsdóttur matvælafræðings hjá Hollustuvernd. "Í liðinni viku fengum við tilkynningu frá norskum heilbrigðisyfirvöldum um ólífuolíu sem unnin er úr hrati en var merkt sem 100% hrein jómfrúrolía og flutt til landsins undir röngu tollskrárnúmeri og innihélt hún mikið magn af PAH. Við höfum því sett hömlur á innflutning á allri ólífuolíu hingað til lands og þurfa innflytjendur nú að sýna fram á að í vörunni sé PAH ekki yfir leyfilegum hámarksgildum.

Ólífuolía er alla jafna unnin þannig að fita er pressuð úr ólífunum og kallast olían sem unnin er með þeim hætti jómfrúarolía. Gæðaminni olía er unnin úr ólífuhratinu með aðferð sem felur í sér hitun en við hitunina myndast eiturefnin sem um ræðir, skv. norska heilsuvefnum mozon.no.