MIKILLAR íhaldssemi gætir í notkun á útspilsreglum í bridsheiminum. Nægir að nefna 11-regluna, að spila út fjórða hæsta frá langlit, sem margir líta á sem trúaratriði.

MIKILLAR íhaldssemi gætir í notkun á útspilsreglum í bridsheiminum. Nægir að nefna 11-regluna, að spila út fjórða hæsta frá langlit, sem margir líta á sem trúaratriði. Helsta frávikið frá þeirri reglu er að spila út þriðja eða fimmta hæsta, eða þá lægsta frá góðum lit (Journalist). Engin af þessum reglum hefði dugað í þessu spili frá sumarbrids á fimmtudaginn:

Suður gefur; AV á hættu.

Norður
ÁG5
G4
D62
ÁD764
Vestur Austur
K1064 9832
Á9863 D52
108 73
G9 K1053
Suður
D7
K107
ÁKG954
82

Vestur Norður Austur Suður
-- -- -- 1 tígull
Pass 2 lauf Pass 2 grönd
Pass 3 grönd Allir pass

Þrjú grönd er hinn eðlilegi samningur í NS og þar sem suður var sagnhafi kom vestur iðulega út með hjarta, oftast sexuna, eða fjórða hæsta. Sagnhafi lét lítið hjarta úr borði og austur var í vondum málum. Ef hann lætur smátt hjarta fær suður slaginn á sjöuna og síðar annan með því að svína fyrir hjartadrottningu. Og ekki er betra að láta drottninguna, eins og flestir gerðu. Suður tók með kóng og auk þess að eiga tvo slagi á hjarta var nú óhætt að svína í báðum svörtu litunum. Þetta gaf ellefu slagi.

En sjáum hvað gerist með hjartaníunni út (eða áttunni). Suður fær fyrsta slaginn á tíuna og er vís með að hirða sína níu slagi. Hann getur að vísu svínað í spaðanum og náð þar í aukaslag, en misheppnuð laufsvíning kostar hann samninginn því að þá gleypir austur hjartagosann með drottningu og vestur bíður á eftir K7 með Á8.

Spil af þessum toga benda eindregið til þess að kominn sé tími til þess að hrista upp í hefðinni og endurskoða útspilsreglurnar.