Victoria var með línurnar í lagi á tónleikum helgarinnar.
Victoria var með línurnar í lagi á tónleikum helgarinnar.
VICTORIA Beckham, gamla "snobb-kryddið", sakar fyrrverandi vinkonu sína Geri Halliwell um að hafa raskað átvenjum sínum.

VICTORIA Beckham, gamla "snobb-kryddið", sakar fyrrverandi vinkonu sína Geri Halliwell um að hafa raskað átvenjum sínum. Þetta kemur fram í nýútkominni sjálfsævisögu Beckham, Learning To Fly, þar sem hún viðurkennir í fyrsta sinn að hafa glímt við átröskun. Hún segir að þegar þær Kryddstelpur bjuggu saman, í upphafi ferilsins, hafi Halliwell hvatt sig til þess að fara í stórhættulega megrun. Halliwell, sem sjálf hefur háð baráttu við lystarstol og lotugræðgi, á samkvæmt Beckham að hafa kennt vinkonum sínum nokkrar vafasamar og miður heilsusamlegar brellur, sem hún taldi að myndu halda línunum í skorðum, þ.ám. að sötra megrunarmjólkurhristing og háma í sig morgunkorn í öll mál í stað þess að borða almennilegan mat. "Ég breyttist mikið við þetta, frá því að vera af og til í megrun í að vera haldin þráhyggju út af línunum."

Hún segist hafa lagast mikið þegar hún gekk með soninn Brooklyn en eftir fæðinguna hafi baráttan við línurnar aftur tekið völdin í lífi hennar, að hluta til vegna þess að hún var heltekin af því að líta vel út á brúðkaupsdaginn.

Hún segist hins vegar hafa náð fullum tökum á þessum vanda sínum í dag og það hafi hún gert með aðstoð fjölskyldu, góðra vina og sérfræðinga.

Í bókinni játar Victoria jafnframt að hafa kýlt eiginmann sinn, knattspyrnustjörnuna David Beckham, eftir að upp komu ásakanir um að hann hefði átt í ástarsambandi við aðra konu. Viktoría segir barsmíðarnar hafa átt sér stað meðan hún var þunguð.

Hún notar líka tækifærið til að neita ýmsum orðrómi sem heyrst hefur í gegnum árin, þ.ám. að hún hafi látið stækka á sér brjóstin, og bendir á að það séu fleiri aðferðir til að láta barminn sýnast stærri en hann í raun er.

Það er annars af stúlkunni að frétta að hún er um það bil að gefa út sína fyrstu einherjaskífu og vinnur hörðum höndum að því að kynna hana.

Menn velta hins vegar vöngum yfir því hvernig einherjaferillinn muni ganga. Fyrstu viðtökur hafa í það minnsta ekki verið alltof upplífgandi því á tónleikum um helgina í borginni Leicester var hún grýtt með góðu úrvali af ávöxtum og grænmeti. Hún lét það ekki á sig fá og kláraði dagskrána af stakri fagmennsku, klædd svörtu leðurdressi.