Svanfríður Jónasdóttir alþingismaður setur viku símenntunar í Eyjafirði í gær.
Svanfríður Jónasdóttir alþingismaður setur viku símenntunar í Eyjafirði í gær.
SVANFRÍÐUR Jónasdóttir alþingismaður setti viku símenntunar í Eyjafirði í gær, en hún er nú haldin í annað sinn og er dagskráin fjölbreytt.

SVANFRÍÐUR Jónasdóttir alþingismaður setti viku símenntunar í Eyjafirði í gær, en hún er nú haldin í annað sinn og er dagskráin fjölbreytt.

Svanfríður nefndi í setningarræðu sinni að mikilvægt væri að tryggja sem flestum aðgang að tölvum og Neti, það væru mikilvægir lyklar að menntun í framtíðinni.

Menntmálaráðuneytið, Mennt og fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt standa að viku símenntunar, en um er að ræða alþjóðlegt átak sem miðar að því að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til endurmenntunar og þekkingarleitar.

Á sjöunda tug námskeiða kynnt

Í Eyjafirði hefur rík áhersla verið lögð á að fá fyrirtæki, stofnanir, stéttarfélög og einstaklinga á svæðinu til samstarfs við undirbúninginn. Á tímabilinu frá 6. til 26. september verður í boði á sjöunda tug fræðslu- og námskeiðskynninga fyrir fyrirtæki, en á annað hundrað fyrirtækja við Eyjafjörð hefur fengið bréf þar sem þau eru hvött til að gefa gaum að fræðslumálum starfsmanna sinna og fá til sín áhugaverðar kynningar.

Meðal þeirra sem kynna nám og námskeið eru Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Reynir-ráðgjafastofa, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Jafnréttisstofa, Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra, Tölvufræðslan, World Class, Eining-Iðja, Félag byggingarmanna í Eyjafirði og Félag málmiðnaðarmanna.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri opnar námstorg á fimmtudag og á föstudag verður haldin ráðstefna um Eyjafjörð og umheiminn þar sem fjallað verður um umhverfismál í Eyjafirði frá sjónarhóli fyrirtækja en þar verður m.a. varpað ljósi á nokkrar leiðir sem fyrirtæki geta farið í þeim efnum.

Menntun og menning við fjörðinn

Menning og menntun við fjörðinn okkar er yfirskrift safnadags sem haldinn verður næstkomandi laugardag. Ljóðalestur verður í Sigurhæðum, gönguferð á vegum Minjasafnsins, Davíðshús verður skoðað og lummukaffi verður í gamla bænum í Laufási. Þá verður leiðsögn um byggðasafnið Hvol á Dalvík og fræðsla um Jóhann Pétursson Svarfdæling. Einnig verður leiðsögn um náttúrugripasafnið í Ólafsfirði.

Vikunni lýkur með kvöldmessu í Akureyrarkirkju en að henni lokinni verður fræðsla á vegum kirkjunnar á komandi vetri kynnt og þau námskeið sem í boði verða.