Óárennilegir: Liðsmenn Singapore Sling.
Óárennilegir: Liðsmenn Singapore Sling.
STEFNUMÓT Undirtóna halda áfram að bjóða upp á skjól fyrir ungar og upprennandi íslenskar dægurlagasveitir á Gauki á Stöng í haust. Vagg og velta er temað í þetta skiptið en það eru sveitirnar Singapore Sling og Fidel sem leika.

STEFNUMÓT Undirtóna halda áfram að bjóða upp á skjól fyrir ungar og upprennandi íslenskar dægurlagasveitir á Gauki á Stöng í haust. Vagg og velta er temað í þetta skiptið en það eru sveitirnar Singapore Sling og Fidel sem leika. Báðar leggja fyrir sig nýbylgjurokk, þótt vissulega sé nokkur áferðarmunur þar á.

Singapore Sling leikur t.a.m. nýrokk með sterkum tilvísunum í breskar sýrurokksveitir frá níunda áratugnum eins og Spacemen 3, Loop og Jesus and Mary Chain. Sveitin rokkar feitt á tónleikum en hefur verið sjaldséð á þeim vettvangi undanfarið þar sem mannabreytingar og almennar annir hafa verið að tefja strákana.

Hljómsveitin Fidel spilar síðrokk og eru þeir nýkomnir úr hljóðveri, hvar þeir tóku upp 13 laga plötu, hvorki meira né minna. Andri Akkúrat gítarleikari slóst í lið með sveitinni fyrir nokkru og sat hann fyrir svörum greinarkornshöfundar.

"Við tókum plötuna upp í æfingahúsnæðinu. Nú á bara eftir að hljóðblanda hana. Það verður gert í Sviss í október."

Sá sem það gerir er kallaður Swell og er víst rísandi stjarna í fræðum þeim sem lúta að upptöku á góðu rokki og róli. Þess má og geta að Swell hefur unnið fyrir aðra íslenska sveit, Stjörnukisa.

"Hann hefur hljóðblandað fyrir Dillinger Escape Plan (reiknirokk), Meshuggah (tækniþungarokk) og Blonde Redhead (nýbylgjurokk) á tónleikum," upplýsir Andri og greinilega því um fjölhæfan náunga að ræða. Hann bætir því svo við að á plötunni verði sex lög sungin, en það þykir tíðindum sæta í síðrokksheimum.

Og er þessi fjörkippur allur vegna Andra Akkúrat eða hvað?

"Jú, jú," segir hann kankvís. "Svona er þetta nú bara."

Húsið verður opnað kl. 21 og er aðgangseyrir 500 kr. Aldurstakmarkið er 18 ár.