ÞRÁTT fyrir að Michael Schumacher hafi sigrað í belgíska kappakstrinum á sunnudag og tryggt sér sigur í 52.

ÞRÁTT fyrir að Michael Schumacher hafi sigrað í belgíska kappakstrinum á sunnudag og tryggt sér sigur í 52. sinn í formúlukeppni og bætt þar með met franska ökuþórsins Alain Prost, er Þjóðverjinn ekki viss um að Ferrari-bíll hans dugi honum til sigurs í a.m.k. tveimur af þremur síðustu keppnum ársins. Schumacher hefur sigrað í átta keppnum á árinu og þarf aðeins tvo sigra til að verða fyrstur allra til að sigra á 10 keppnum á sama keppnitímabili. "Monza-brautin á Ítalíu, þar sem næsta keppni verður haldin, hentar kraftmeiri bílum og ég tel að Williams-BMW liðið eigi meiri möguleika en Ferrari," sagði hinn fjórfaldi heimsmeistari að lokinni keppni á belgíska kappakstrinum í Spa og bætti því jafnframt við að brautin í Indianapolis í Bandaríkjunum sem verður vettvangur næstsíðustu keppninnar væri einnig betri fyrir Williams. Schumacher virðist því hógvær fyrir lokaátökin, ekki síst í ljósi þess að hann sigraði á Monza og í Indianapolis á síðasta ári.

Keppnin í Spa fór illa af stað, ræsa þurfti keppendur í þrígang, og í lokaræsingunni var Schumacher á ráspól, þar sem aðrir höfðu helst úr lestinni. Alvarlegt slys varð á fimmta hring kappakstursins er Prostökuþórinn Luciano Burti skall á mikilli ferð á dekkjavegg, en hann slapp ótrúlega vel frá árekstrinum.

Yfirburðir Schumachers voru talsverðir í keppninni og mesta spennan var á milli þeirra Davids Coulthards og Fisichella um annað sætið, þar sem Coulthard hafði að lokum betur og er breski ökumaðurinn með 57 stig í öðru sæti stigakeppninnar en Rubens Barrichello er í þriðja með 44 stig - sextíu stigum minna en Schumacher.

Bróðir Micahels, Ralf Schumacher, er fjórði með 44 stig og fimmti er Finninn, Mika Häkkinen. Hann hefur önglað saman 24 stigum. Í keppni bílasmiða hefur Ferrari fyrir löngu tryggt sér sigur. Eftir keppnina um helgina hefur Ferrari fengið 152 stig. Næst kemur McLaren-Mercedes með 81 stig og í þriðja sæti er sveit Williams BMW, hefur hlotið 59 stig.