Íslandsmeistararnir, Rúnar Jónsson og Jón Ragnarsson, á fullri ferð á sérleiðinni um Sundahöfn.
Íslandsmeistararnir, Rúnar Jónsson og Jón Ragnarsson, á fullri ferð á sérleiðinni um Sundahöfn.
FEÐGARNIR Rúnar Jónsson og Jón R. Ragnarsson á Subaru Impreza sigruðu í alþjóðarallinu Rally Reykjavík sem lauk á laugardaginn og tryggðu sér þar með Íslandsmeistaratitilinn í ellefta sinn. Sigurinn var afar öruggur þar sem það munaði rúmlega fjórum og hálfri mínútu á þeim og Sigurði Braga Guðmundssyni og Rögnvaldi Pálmasyni á MG Metro eftir að hafa lagt að baki 318 km á sérleiðum. Feðgarnir óku þessar sérleiðir á tímanum 2:55:45 sem gerir 109 km meðalhraða.

Baldur Jónsson og Arnar Valsteinsson á Subaru Legacy tryggðu sér þriðja sætið á hreint ótrúlegum endaspretti, voru sex sekúndum á undan Hjörleifi Hilmarssyni og Jóni Þóri Jónssyni á MMC Lancer. Í fimmta sæti voru þeir Gunnar Viggósson og Björn Ragnarsson á Ford Escort en þeir komu á tveimur jafnfljótum á verðlaunapall þar sem bifreið þeirra gafst upp á leiðinni þangað eftir að hafa tekið mikið vatn inn á sig á leiðinni um Djúpavatn. Jóhannes V. Gunnarsson og Linda Karlsdóttir á Ford Escort sigruðu í flokki bíla með drif á einum öxli og þeir Hlöðver Baldursson og Halldór G. Jónsson á Toyota Corolla unnu nýliðaflokkinn.

Veltu tvisvar í sömu keppni

Hjörtur og Ísak ætluðu sér stóra hluti í þessari keppni og settu markið á sigur til að halda baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn opinni, en þetta var ekki þeirra keppni. Þeir byrjuðu á að tapa miklum tíma á fyrsta degi keppninnar vegna bilaðs bremsukerfis og ekki fór betur en svo að þeir veltu bifreið sinni í tvígang á öðrum degi. Í fyrra skiptið ultu þeir á Gunnarsholtsleið en náðu að klára sérleiðina og halda keppni áfram þrátt fyrir nokkuð laskaðan bíl. Ekki vildi betur til en að þeir veltu bifreið sinni í annað sinn á Lyngdalsheiði eftir að hafa ætlað að bæta stöðu sína en sú ferð endaði með fyrrgreindum afleiðingum og þeir urðu að hætta keppni.

Feðgarnir náðu strax að búa sér til mikið forskot og spiluðu á það út keppnina. Þeim var í raun aldrei ógnað og var þetta einungis spurning um að komast alla leið í mark. Með þessum sigri hafa þeir náð að sigra á öllum mótum sumarsins með nokkrum yfirburðum og haft allt í hendi sér. "Ég lagði af stað í upphafi árs með það að markmiði að verða Íslandsmeistari en ég bjóst samt ekki við að vinna fimm mót í röð með fullu húsi stiga, þótt maður geri sér alltaf vonir um það, því maður fer í hverja keppni til að sigra. Þetta hefur gengið mjög vel. Við erum með frábært lið í kringum okkur sem sér um bílinn og allt sem viðkemur rallinu hjá okkur, en það er stór þáttur hjá okkur í þessum árangri að liðið sé gott. Við höfum haldið vel á spilunum og leikið af skynsemi í sumar, keyrt hratt þegar á þarf að halda og gefið eftir annars staðar," sagði Rúnar þegar Morgunblaðið náði tali af honum að keppni lokinni.

Rúnar á leið í atvinnumennsku?

"Ég hef stefnt út síðastliðna mánuði og það gæti eitthvað verið að gerast í því. Maður verður að komast út til að keyra, það er nokkuð ljóst. Ég er búinn að vera svo lengi í þessu og hef náð þessum titli svo oft að maður þarf bara að komast eitthvað annað," sagði Rúnar aðspurður um hvert framhaldið hjá honum yrði eftir þetta keppnistímabil. Til stóð að Rúnar færi út í sumar en eftir gin- og klaufaveikifaraldurinn í Bretlandi hefur ekki verið leyft að ralla þar í landi það sem af er árinu og því féllu áform Rúnars um sjálf sig.

Sigurður Bragi og Rögnvaldur hafa sýnt í sumar að þeir geta ekið hratt og það sýndu þeir einnig í þessari keppni. Þeir óku nokkuð greitt fyrri hluta keppninnar en í síðari hlutanum sneru þeir akstrinum upp í nokkurs konar vörn og ákváðu að halda fengnum hlut. "Í lokin snerist þetta bara um að halda fengnum hlut," sagði Sigurður Bragi. "Það er allt öðruvísi akstur en maður á að venjast þegar verið er að keppa um hverja sekúndu en er engu að síður jafn spennandi. Maður er að reyna að verjast og halda forskotinu. Baldur var um sex mínútum á eftir okkur þegar keppnin var hálfnuð og við settumst bara niður og ákváðum hvar við ætluðum að gefa eftir svona helminginn af þeim tíma. Baldur keyrði hraðar en við bjuggumst við og tók af okkur rúmar fjórar mínútur af þessu forskoti og munar mest um þær 40 sekúndur sem hann tók af okkur á leiðinni um Tröllháls, en við höfðum ekki reiknað með nema um 10-20 sekúndum þar. Eftir þetta urðum við að gefa töluvert í á leiðinni um Kaldadal og náðum þá svipuðum tíma og hann og þá var þetta eiginlega alveg öruggt," sagði Sigurður Bragi, en strax á fyrstu sérleið keppninnar leit út fyrir að hann yrði að hætta keppni vegna of hás olíuþrýstings í bílnum.

Keppnisskapið færði þriðja sætið

Baldur og Arnar áttu góðan möguleika á að veita Rúnari nokkra keppni í þessu ralli en á sérleiðinni um Gunnarsholt töpuðu þeir rúmum sex mínútum á því að þurfa að stöðva bílinn í þrígang eftir að rafmagnsvír fór í sundur. Þeir féllu við það niður í fjórða sæti en voru ákveðnir í að vinna sig upp. "Ég held að enginn hafi trúað því að ég ætlaði mér að ná Hjörleifi þegar ég var rúmum fjórum og hálfri mínútu á eftir honum eftir Gunnarsholtið á öðrum degi," sagði Baldur, sem var einungis með sex sekúndum betri tíma en Hjörleifur þegar keppni lauk. "Ég hélt því stöðugt fram að ég myndi ná honum, það trúði því enginn en ég ætlaði að reyna, ég lagði gersamlega allt undir. Ég ók mjög vel síðasta daginn og sigraði á öllum sérleiðunum. Ég var ekki tilbúinn að sætta mig við að það, að einn vír skyldi brenna í sundur, kostaði mig verðlaunasæti. Þetta hafðist en það mátti ekki tæpara standa. Ég hef alltaf unnið þegar ég hef verið í sekúnduslag," sagði Baldur sem þurfti að fá aðstoð til að komast út úr bílnum eftir síðustu sérleiðina um Djúpavatn þar sem hann var gersamlega búinn með allt þol en hann fékk lungnabólgu mánuði fyrir keppni og var rétt að komast á ról stuttu fyrir keppnina. Hjörleifur var að vonum vonsvikinn yfir að hafa misst Baldur fram fyrir sig en eigi að síður sáttur við úrslitin. "Við töpuðum þessu niður Tröllháls eftir að við misstum bremsurnar, klossarnir voru komnir járn í járn. Baldur náði af mér 35 sekúndum á þessari leið en eðlilegt hefði verið 15 sekúndur og því má segja að við höfum tapað þar," sagði Hjörleifur.

Bjuggu til eitt drif úr tveimur

Fyrirfram var spáð að barátta yrði í nýliðaflokknum en eftir að Halldór Björnsson og Árni Jónsson á Toyota Corolla gleymdu að stoppa á miðri ferjuleið eftir fyrstu sérleið og fá stimpil í leiðabókina var útlit fyrir að Hlöðver Baldursson og Halldór G. Jónsson á samskonar bíl myndu hafa þetta í hendi sér því Halldór og Árni voru dæmdir úr keppni vegna þessara mistaka. Hlöðver og Halldór G. fengu 80 sekúndur í refsingu vegna þess hversu lengi þeir voru fram yfir leyfilegan viðgerðatíma eftir sérleiðina um Gufunesið og voru þeir í þriðja sæti eftir fyrsta keppnisdag. "Það brotnaði hjá mér drif í seinni ferðinni um Gufunesið en við náðum að búa til eitt drif úr tveimur frekar lélegum og það hékk út keppnina," sagði Hlöðver, sem jók hraðann á öðrum degi og var fljótlega kominn með forystu og sigruðu þeir í keppninni með nokkrum yfirburðum. Óskar Sólmundsson og Valtýr Kristjánsson, sem aka einnig á samskonar bíl, sóttu að Hlöðveri en urðu að láta í minni pokann þegar þeir brutu öxul á leiðinni um Dómadal og urðu að hætta. Þegar einungis ein keppni er eftir í mótinu eiga Halldór og Árni annars vegar og Hlöðver og Halldór G. hins vegar möguleika á titlinum en til þess þurfa Halldór og Árni að sigra í næstu keppni.

Gunnlaugur Einar Briem skrifar