ÞEGAR ítalski skartgripasalinn Bulgari fór þess á leit við bresku skáldkonuna Fay Weldon að hún skrifaði skáldsögu um fyrirtækið neitaði hún þegar í stað.

ÞEGAR ítalski skartgripasalinn Bulgari fór þess á leit við bresku skáldkonuna Fay Weldon að hún skrifaði skáldsögu um fyrirtækið neitaði hún þegar í stað. En Weldon, sem er þekkt fyrir að taka óvenjulega áhættu, fékk bakþanka, að því er umboðsmaður hennar, Giles Gordon, greindi frá.

Útkoman varð skáldsagan Bulgari-tengslin (The Bulgari Connection), sem gefin verður út í Bandaríkjunum í næsta mánuði. Gegn því að fá greidda tiltekna upphæð, sem ekki hefur verið gert uppskátt um, nefndi Weldon Bulgari-skartgripaverslunina í London tólf sinnum á nafn í bókinni.

Heimildamenn í útgáfubransanum telja sumir að þetta sé í fyrsta sinn sem skáldsaga er pöntuð í þeim tilgangi að auglýsa tiltekna vöru. Weldon sjálf vildi í gær ekki ræða um bókina, en umboðsmaður hennar sagði þetta vera "einhverja bestu skáldsögu hennar". Það rýri bókina ekki að minnst sé á Bulgari tólf sinnum í henni.

Meðal þekktustu skáldsagna Weldons eru Praxís og Ævi og ástir kvendjöfuls, sem báðar hafa verið þýddar á íslensku. Weldon hóf ritferil sinn sem auglýsingatextahöfundur. Hún sagði einu sinni frá því að auglýsingar hefðu verið "það eina sem ég gat gert til að hafa til hnífs og skeiðar".

London. AP.