FLÓTTAMENNIRNIR, sem höfðust við í heila viku um borð í norska gámaflutningaskipinu Tampa fyrir ströndum Jólaeyju, voru í gær ferjaðir yfir á ástralskt herskip sem flytur þá til Papúa Nýju-Gíneu.

FLÓTTAMENNIRNIR, sem höfðust við í heila viku um borð í norska gámaflutningaskipinu Tampa fyrir ströndum Jólaeyju, voru í gær ferjaðir yfir á ástralskt herskip sem flytur þá til Papúa Nýju-Gíneu.

Áætlað er að förin til Papúa Nýju-Gíneu taki um viku, en aðstæður fyrir flóttafólkið eru mun betri um borð í ástralska herskipinu, HMAS Manoora, en á Tampa. Eftir komuna til Port Moresby verða flóttamennirnir, sem eru að minnsta kosti 430 talsins, fluttir flugleiðis til Nýja-Sjálands og Kyrrahafseyjarinnar Nauru. Þar verða umsóknir þeirra um hæli afgreiddar, en hluti fólksins mun fá landvistarleyfi í öðrum ríkjum.

Ástralskur dómstóll á reyndar eftir að kveða upp endanlegan úrskurð í máli mannréttindasamtaka, sem kröfðust þess að flóttafólkið fengi að koma á land á Jólaeyju. Úrskurðarins er að vænta í vikunni, en ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að Áströlum hafi borið skylda til að taka við flóttafólkinu verður HMAS Manoora snúið við.

Flóttamennirnir eru flestir frá Afganistan, en áhöfn Tampa bjargaði þeim af sökkvandi indónesískri ferju fyrir tíu dögum. Fjórir skipverjar indónesísku ferjunnar voru hnepptir í gæsluvarðhald á Jólaeyju í gær og verða væntanlega ákærðir fyrir brot á áströlskum innflytjendalögum.

Jólaeyju. AFP, AP.