COLIN Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf í gær fulltrúum landsins á alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Suður-Afríku um kynþáttamisrétti skipun um að ganga af fundi til að mótmæla árásum arabaþjóða á stefnu Ísraela.

COLIN Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf í gær fulltrúum landsins á alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Suður-Afríku um kynþáttamisrétti skipun um að ganga af fundi til að mótmæla árásum arabaþjóða á stefnu Ísraela. Skömmu síðar sögðust Ísraelar einnig myndu hverfa á brott og gert var ráð fyrir að Kanadamenn gerðu slíkt hið sama. Í drögum að lokayfirlýsingu ráðstefnunnar og ýmsum plöggum sem dreift hefur verið er síonisma, þeirri stefnu gyðinga að þeir eigi rétt á þjóðarheimili í Ísrael, jafnað við kynþáttafordóma, rasisma. Eru Ísraelar sakaðir um svonefnda þjóðarhreinsun og þjóðarmorð.

Ráðstefnunni á að ljúka á föstudag. Powell utanríkisráðherra sagðist í yfirlýsingu sinni hafa tekið ákvörðunina með trega en hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að fundurinn gæti ekki orðið gagnlegur í baráttunni gegn kynþáttafordómum.

"Ég veit að ekki er hægt að berjast gegn kynþáttahatri með ráðstefnu sem samþykkir ályktanir þar sem notað er hatursfullt orðalag er í sumum tilfellum er afturhvarf til þeirra tíma er síonismi var sagður vera kynþáttahatur, ýtir undir þá hugmynd að of mikið hafi verið gert úr Helförinni, gefur til kynna að aðskilnaðarstefna sé við lýði í Ísrael eða gerir eina þjóð, Ísraela, að blóraböggli og skotmarki," sagði Powell.

Ráðstefnan er haldin í Durban í Suður-Afríku og var markmiðið að efla baráttu gegn kynþáttamisrétti og nýlendustefnu. Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, sagðist skömmu síðar hafa kallað sendinefnd Ísraela heim frá Durban og harmaði að "furðulegar uppákomur" hefðu einkennt ráðstefnuna. Hefðu Ísraelar verið sakaðir um nýlendustefnu og arabaríkin hefðu haft samráð á ráðstefnunni um að varpa allri ábyrgðinni á deilunum við Palestínumenn á Ísraela. Nokkru áður hafði Peres sagt í viðtali að Ísraelar myndu ekki hafa frumkvæði að því að ganga af fundi vegna þess að ef þeir gerðu það og Bandaríkjamenn fylgdu þeim yrðu hinir síðarnefndu sakaðir um að láta Ísraela stjórna gerðum sínum.

"Allt Arababandalagið hefur ákveðið að vera á móti friði," sagði Peres reiðilega. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin forsætisráðherra, er var myrtur ári síðar, og Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, fyrir þátt sinn í friðarsamkomulaginu sem kennt er við Ósló.

Reynt fram á síðustu stundu að sætta deiluaðila

Norðmenn reyndu fram á síðustu stundu að fá deiluaðila til að sættast á málamiðlun. Amr Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins og fyrrverandi utanríkisráðherra Egyptalands, sagði áður en skýrt var frá ákvörðun Powells að ljóst væri að Palestínumönnum væri mismunað og yrðu Ísraelar að sætta sig við að stefna þeirra væri gagnrýnd. Moussa sagði hins vegar brýnt að Bandaríkjamenn tækju þátt í ráðstefnunni og tryggðu að samin yrði lokayfirlýsing þar sem gætt yrði jafnvægis.

Durban, Washington, Jerúsalem. AFP, AP.