Jesse Jackson talar í símann á ráðstefnunni í Durban í gær.
Jesse Jackson talar í símann á ráðstefnunni í Durban í gær.
HART var tekist á um drög að lokayfirlýsingu á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma og nýlendustefnu í Durban í Suður-Afríku í gær.

HART var tekist á um drög að lokayfirlýsingu á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma og nýlendustefnu í Durban í Suður-Afríku í gær. Ísraelar mótmæltu ákaft að síonisma væri líkt við kynþáttahatur og jafnframt að reynt væri að fá samþykkt orðalag þar sem tilverurétti Ísraels sem þjóðarheimilis gyðinga væri í reynd hafnað. Fulltrúar Norðmanna reyndu í gær að finna málamiðlun sem hægt yrði að sættast á.

Ísraelar saka fulltrúa arabaþjóða og þá einkum Palestínumenn um að hafa lagt ráðstefnuna undir sig með það að markmiði að fá stefnu Ísraela gagnvart Palestínumönnum fordæmda. Mordechai Yedid, formaður sendinefndar Ísraels, sagði í ræðu sinni að deilur Ísraela og Palestínumanna væru pólitískt vandamál og ættu ekki að vera viðfangsefni alþjóðaráðstefnu um kynþáttamisrétti. Hann fordæmdi andúðina sem kæmi fram á ráðstefnunni gagnvart síonisma og sagði að þar væri á ferðinni afbrigði af gyðingahatri.

"Hvað eru andstyggilegar skopmyndir af gyðingum sem fylla dagblöð í arabalöndum og dreift er á ráðstefnunni...annað en endurtekning á aldagömlum lygaþvættingi gyðingahataranna?" spurði Yedid. Hann gagnrýndi einnig að í drögunum væri rætt um fleiri en eina "helför" en hugtakið hefur í nútímanum einkum verið notað um útrýmingarherferð nasista gegn gyðingum á 20. öld.

Ísraelar eru einnig sakaðir um að níðast á Palestínumönnum á hernumdu svæðunum með því að beita aðskilnaðarstefnu í anda stefnu hvíta minnihlutans er var áður við völd í Suður-Afríku. Dómsmálaráðherra Ísraels, Meir Sheetrit, andmælti þeim ásökunum á blaðamannafundi í Jerúsalem. "Hafið þið nokkurn tíma séð strætisvagna sem eingöngu eru ætlaðir gyðingum eða eingöngu aröbum?" spurði hann og sakaði andstæðinga Ísraels um veruleikafirringu.

Framkvæmdastjóri Arababandalagsins, Egyptinn Amr Moussa, varaði við því að samþykkt yrði ályktun sem væri hlutdræg. Slík samþykkt yrði einfaldlega fordæmd og myndi aldrei hafa nein áhrif. Hann var í gær vondaufur um að hægt yrði að miðla málum. En Moussa sagði að í lokayfirlýsingunni yrði að vera tilvísun til stefnu Ísraela og vísaði því á bug að arabar hefðu þvingað fulltrúana til að fjalla óeðlilega mikið um Miðausturlönd og átökin þar. "Beitt er aðferðum kynþáttamisréttis í deilunum og þess vegna verður einnig að taka á því máli," sagði Moussa.

Deilurnar um síonisma og Ísrael hafa yfirgnæft að mestu leyti önnur mál, þ.ám. hugmyndir um að fyrrverandi nýlenduríki biðjist afsökunar á að hafa flutt þræla frá Afríku til Vesturheims og greiði jafnvel skaðabætur fyrir meðferðina á þrælunum.

Talsmaður Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, ítrekaði í gær þá stefnu stjórnvalda að ekki yrði beðist afsökunar á þrælahaldinu en látið nægja að harma þá atburði. Spánverjar, Portúgalar og Hollendingar, allt fyrrverandi nýlenduríki er keyptu á sínum tíma marga þræla af afrískum höfðingjum á vesturströnd Afríku, taka undir með Bretum. Mun andstaðan við afsökunarbeiðni byggjast á því að menn óttast að hún geti síðar orðið vopn í höndum þeirra sem krefjast þess að nýlenduveldin greiði Afríkuþjóðum skaðabætur fyrir þrælahaldið. En að sögn BBC er ekki full eining um málið í Evrópusambandinu. Þannig vilji Belgar koma til móts við kröfurnar um afsökun.

Blökkumannaleiðtoginn bandaríski, Jesse Jackson, leggur áherslu á að nýlenduveldin biðjist afsökunar og segir að geri þau það ekki jafngildi það að ríkin segist vera stolt af nýlendutímanum. Rætt er meðal svartra Bandaríkjamanna að stjórnvöld ættu að greiða þeim bætur fyrir syndir forfeðranna.

Þrælahald hefur viðgengist í heiminum, ekki síst í Afríku, frá örófi alda og voru innlendir höfðingjar oftast þeir sem mest græddu á sölunni en einnig voru arabískir þrælakaupmenn umsvifamiklir. Danir urðu fyrstir þjóða til að banna allt þrælahald í ríki sínu undir lok 18. aldar. Bretar bönnuðu það um 1830 og beittu síðan flota sínum gegn þrælakaupmönnum til að stöðva flutningana til Vesturheims.

Durban, London. AP, AFP.