EFTIR að hafa borað um fjóra kílómetra niður í færeyska landgrunnið - og kostað til þess sem svarar um tveimur milljörðum íslenzkra króna - er nú orðið ljóst að norska olíufélagið Statoil hefur í sumar ekki tekizt að finna olíu í vinnanlegu magni.

EFTIR að hafa borað um fjóra kílómetra niður í færeyska landgrunnið - og kostað til þess sem svarar um tveimur milljörðum íslenzkra króna - er nú orðið ljóst að norska olíufélagið Statoil hefur í sumar ekki tekizt að finna olíu í vinnanlegu magni.

Í tilkynningu frá olíumálaráðuneyti færeysku landstjórnarinnar í gær eru staðfestar þær fregnir, að tilraunaboranir Statoil - sem er fyrst sjö handhafa olíuleitarleyfa í færeysku lögsögunni sem efnir til slíkra borana - hafi skilað litlum árangri, en olíumálaráðherrann Eyðun Elttør leggur áherzlu á að þetta þýði alls ekki að vonin um að olíulindir finnist í færeyska landgrunninu sé slokknuð.

"Það er miður, að Statoil skyldi ekki hafa fundið olíu í nægilegu magni til að það borgaði sig að vinna hana. En þær vísbendingar, sem fundizt hafa um olíu- og gaslindir í þessari borholu ýta þó undir vonir um að framhald olíuleitarinnar muni skila árangri," segir Elttør. "Seinna á þessu ári og á næstu árum verða boraðar nokkrar tilraunaborholur til viðbótar og frekari rannsóknir gerðar á landgrunninu. Svo að ég bind enn góðar vonir við að það finnist olía í færeyska landgrunninu," sagði hann.

Á næstu dögum er niðurstaðna vænzt úr tilraunaborun BP, annars olíuleitarleyfishafanna, skammt frá borholu Statoil, en þær kváðu ekki vera betri en hjá Statoil. Brátt hefst þriðji leitarleyfishafinn, fjölþjóðleg samsteypa sem kallast Faroese Partnership, handa við sínar tilraunaboranir. Leitarsvæðið er í svokölluðu "Gullhorni" næst lögsögumörkum Færeyja og Bretlands við Hjaltland, en Hjaltlandsmegin mala olíuborpallar gull fyrir brezkt hagkerfi.

Þórshöfn. Morgunblaðið.