HÆSTIRÉTTUR féllst í gær á kröfu manns um að lögreglan í Reykjavík afhenti honum endurrit fjögurra úrskurða um símhleranir á tímabilinu frá 1995 til maí á þessu ári.

HÆSTIRÉTTUR féllst í gær á kröfu manns um að lögreglan í Reykjavík afhenti honum endurrit fjögurra úrskurða um símhleranir á tímabilinu frá 1995 til maí á þessu ári. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað þessari kröfu en Hæstiréttur segir að embætti lögreglustjórans í Reykjavík bresti heimild til að synja manninum um aðgang að umræddum úrskurðum.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að maðurinn var handtekinn 12. desember sl. vegna gruns um refsiverða aðild að hvarfi karlmanns, sem saknað hefur verið frá árinu 1992. Var maðurinn yfirheyrður vegna þess máls sem sakborningur daginn sem hann var handtekinn og þann næsta.

Fram kemur í dómnum að af gögnum málsins sé ljóst að maðurinn sé enn grunaður um að eiga aðild að mannshvarfinu. Liggi meðal annars frammi bréf lögreglunnar til verjanda mannsins frá því í maí, þar sem fram kemur að rannsókn málsins sé ekki lokið og muni honum verða gert viðvart ef og þegar rannsókn á hendur honum verði hætt. Ekkert liggi fyrir um það í málinu að manninum hafi borist slík tilkynning. Hæstiréttur segir m.a. að túlka eigi ákvæði laga um meðferð opinberra mála með hliðsjón af þeirri meginreglu að verjandi skuli fá endurrit gagna jafnskjótt og unnt er. Þá hafi lögreglan ekki sýnt fram á að það myndi skaða rannsóknarhagsmuni málsins ef endurrit ofangreindra fjögurra úrskurða yrði afhent, en almenn staðhæfing þessa efnis nægi ekki.