ÞRÁTT fyrir að eiga ekki möguleika til að komast af botni riðils síns og ekkert nema heiðurinn í húfi sýndi íslenska körfuknattleikslandsliðið því írska enga miskunn þegar liðin áttust við forkeppni Evrópumótsins í Njarðvík á laugardaginn. Lukkan gekk hinsvegar í lið með Írum síðustu mínúturnar þegar þeir náðu yfirhöndinni og sigruðu 78:84 í stórskemmtilegum leik.

Eftir fyrstu fjórar mínúturnar var Ísland komið með 5 stiga forskot, 9:4, en þá tóku gestirnir við sér og skoruðu næstu 13 stigin. Margir sögðu með sér að nú væri útséð með úrslitin en íslensku leikmennirnir voru ekki á sama máli og með gríðarlegri baráttu, þegar þeir sýndu Írum enga virðingu, tókst þeim að snúa taflinu aftur við og hafa 49:43 forystu í hálfleik.

Írski þjálfarinn lét sína menn heyra það óþvegið í leikhléi og fyrstu fimm mínúturnar var eins og sú ræða hefði dugað til að koma Írum í gang því þeir náðu naumu forskoti. En sem fyrr höfðu íslensku strákarnir ekki sagt sitt síðasta orð, hófu á ný að berjast fyrir sínum hlut og fjórum mínútum fyrir leikslok var staðan 75:74, Íslandi í vil. Þá seig á ógæfuhliðina. Írum tókst að komast yfir með skoti þegar tæp sekúnda var eftir af skotklukkunni og í næstu sókn misstu Íslendingar boltann í hendur Íra, sem þökkuðu fyrir sig með því að ná þriggja stiga forystu. Aftur skoruðu Írar þegar sekúnda var eftir af skotklukkunni og Íslendingar höfðu ekki tíma til að snúa leiknum aftur við.

Strákarnir geta verið stoltir

"Við vorum aðeins of hikandi í lokin og Írar náðu að snúa leiknum sér í vil með því að stela boltanum en það hefði verið góður endir á góðum degi hjá íslensku drengjunum að vinna leikinn," sagði Friðrik Rúnarsson þjálfari íslenska liðsins eftir tapið fyrir Írum en hann sá samt ljósa punkta. "Það vantaði herslumuninn að við hefðum sigrað en fyrst og fremst geta leikmenn sjálfir verið stoltir af frammistöðu sinni hér í kvöld því það er allt annað að sjá til þeirra frá síðustu tveimur leikjum. Þeir sýndu sjálfum sér að þeir geta ýmislegt ef þeir leggja sig samstilltir fram."

Þjálfarinn segir vandann frekar liggja í kollinum. "Stundum erum við ekki sterkir í kollinum. Við höfum oft staðið okkur vel á móti þjóðum, sem eru taldar betri en við og það vantar oft herslumuninn. Þetta er svo sem ekki neitt nýtt, frekar en í öðrum íþróttagreinum og vandi í kollinum, sem þarf að vinna í. Ég vona að þeir skilji nú muninn á milli þess þegar menn eru virkilega að leggja sig fram og ekki, að það getur ýmislegt gert. Maður lærir af allri reynslu hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð og ég vona að þeir hafi lært af þessum leik," bætti Friðrik við.

Góður sigur eftir erfiða leiki

Bill Dooley þjálfari Íra var að vonum sáttur við úrslitin en ekki leik liðsins. "Ég er ekki sáttur við leik liðsins en það var erfitt að fara í þennan leik því það stutt síðan við lékum tvo erfiða leiki, sem við urðum að vinna. Þess vegna lékum við ekki vel, sérstaklega í vörninni, án þess að ég geti tekið nokkuð frá íslenska liðinu, sem lék vel með marga unga leikmenn. Við leyfðum þeim alltof mikið og þeir skutu svo sannarlega vel svo að ég er ánægður með að ná sigri," sagði Dooley eftir leikinn.

Stefán Stefánsson skrifar