Pavel Srnicek markvörður Tékka hafði í nógu að snúast á Laugardalsvellinum á laugardag og þrisvar sinnum mátti Srnicek hirða knöttinn úr netmöskvunum.

Pavel Srnicek markvörður Tékka hafði í nógu að snúast á Laugardalsvellinum á laugardag og þrisvar sinnum mátti Srnicek hirða knöttinn úr netmöskvunum. Brescia-leikmaðurinn var umsetinn tékkneskum blaðamönnum eftir leikinn og greinilegt var að tap gegn Íslendingum var gríðarlegt áfall fyrir hann sem og landa hans sem leituðu eftir skýringum hjá Srnicek.

"Þetta er svartur dagur fyrir tékkneska knattspyrnu. Við ætluðum okkur sigur en að mínu mati gerðu ákvarðanir dómara leiksins okkur erfitt fyrir. Brottrekstur Kollers var að mínu mati vafasamur og annað mark Íslands var ekki löglegt, sá sem skoraði var rangstæður, " sagði Srnicek og var greinilega ekki ánægður með dagsverk ítalska dómarans, Domenico Messina. "Við vissum allt sem við þurftum að vita um íslenska liðið, leikmenn þess eru líkamlega sterkir og vel skipulagðir í leik sínum. En aftur kemur að þætti dómarans sem leyfði allt of mikla hörku. Ég er ekki að skrökva þegar ég segi að það hafi verið blóðpollar á vellinum eftir átökin, enda nefbrotnaði einn af okkar leikmönnum," sagði Srnicek en aðspurður sagðist hann ekki hafa átt möguleika á að verjast þriðja marki Íslendinga. "Varnarveggurinn var skipaður þremur leikmönnum, þeir hafa eflaust búist við að Eyjólfur Sverrisson renndi boltanum á nr. 6. (Jóhannes Karl Guðjónsson), en skotið fór í gegnum varnarvegginn og ég sá því ekki boltann fyrr en um seinan." Srnicek sagði ennfremur að möguleikar Tékka á úrslitasæti á HM árið 2002 væru ágætir en ný staða væri komin upp. "Við vonumst eftir hægstæðum úrslitum í næstu leikjum. Kannski verður það okkur í hag að Íslendingar vinni Dani í lokaleik riðilsins, en við megum ekki gleyma því að íslenska liðið á nú möguleika. Við eigum tvo heimaleiki eftir í Teplic, gegn Möltu og Búlgaríu, þar eru möguleikar fyrir okkur að ná í sex stig," sagði Srnicek.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson