Jóel og saxinn hans góði verða á útopnu í Kaffi Reykjavík í kvöld.
Jóel og saxinn hans góði verða á útopnu í Kaffi Reykjavík í kvöld.
Í KVÖLD kl. 21 hefjast fyrstu tónleikar á Jazzhátíð Reykjavíkur á Kaffi Reykjavík.

Í KVÖLD kl. 21 hefjast fyrstu tónleikar á Jazzhátíð Reykjavíkur á Kaffi Reykjavík. Það er saxófónleikarinn rómaði Jóel Pálsson sem ætlar að leika tónlist af geisladiskinum sínum Klif sem kom út í vor, en árið 1998 gaf Jóel út diskinn Prím sem hefur verið dreift víða um lönd.

Með honum leika Hilmar Jensson á gítar, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á kontrabassa og Matthías M.D. Hemstock á trommur. Inngangseyrir er 1.500 krónur.

Breytt yfirbragð

"Við höfum ekkert flutt þessa tónlist síðan Klif kom út, þannig að þetta er í fyrsta skipti sem hún verður leikin opinberlega. Við lékum reyndar eitthvað af henni á Múlanum áður en hún kom út í vor en ekki í heild sinni."

Á plötunni leikur rafbassaleikarinn Skúli Sverrisson, sem býr og starfar í Bandaríkjunum, þannig að kontrabassaleikarinn Valdimar Kolbeinn kemur í hans stað á tónleikunum í kvöld.

"Yfirbragðið er aðeins breytt því Skúli sá um marga rafmagnseffekta, auk þess að leika á rafbassa. Nú á tónleikunum verður Matthías hins vegar með ýmis tæki og tól sem hann beitir fyrir sig," útskýrir Jóel. En helsti stílmunur Klifs og Príms eru áhrif úr raftónlistarheiminum á Klifi."

- Hvað ætlarðu að vera með marga lúðra?

"Ég leik auðvitað á tenórinn, sem er mitt aðalhljóðfæri, og svo verð ég með kontrabassaklarinettið mitt, sem ég nota í tveimur lögum á plötunni. Ég er mjög hrifinn af þeim mikla og fallega tóni sem kemur úr því. Ég var að hugsa um að fá mér bassasaxófón en skipti strax um skoðun þegar ég heyrði í þessu."

Býsna opin tónlist

"Ég gríp líka í sópransaxófóninn sem ég hef við höndina þannig að ég er kominn með mjög breytt tónsvið í tónlistina. Kontrabassaklarinettið er einstakt hljóðfæri og mér finnst mjög gaman að spila á það því mig hefur alltaf langað til að vera bassaleikari," kemur Jóel upp um sig. "Ég held að ég yrði ágætis bassaleikari."

Jóel segist ekki ætla að læða neinum nýrri tónsmíðum að í dagskrá kvöldsins, heldur einbeita sér að Klifi.

"Þessi tónlist er býsna opin þannig að það má alveg gera ráð fyrir að tónleikarnir verði frábrugðnir plötunni. Ekki síst þar sem við erum með nýjan hljóðfæraleikara. Kontrabassaklarinett og kontrabassi fara líka einstaklega vel saman," segir Jóel.

- Þannig að við megum búast við ykkur í brjáluðu spunastuði?

"Já, þetta verður einhver gjörningur," segir Jóel að lokum og hvetur alla til að mæta, því óljóst sé um alla tónleika bæði innan lands og utan á næstunni.