Sjöunda breiðskífa hljómsveitar Paddys McAloons sem nú nýtur aðstoðar gamla upptökustjóra Davids Bowies, Tonys Viscontis.

HANN verður seint verðlaunaður fyrir afköst, rómantíkerinn óbilandi hann Paddy McAloon. Ferill Prefab Sprout spannar nú heila tvo áratugi og afraksturinn er einar sjö plötur, að þessari nýjustu meðtalinni.

Fyrir tæpum áratug greip karlinn eitthvert sveitasöngvaæði er hann samdi tónlistina við sjónvarpsþættina Crocodile Shoes og þrátt fyrir að síðasta platan, Andromeda Heights, hafi gefið annað til kynna þá virðist hann enn vera við sama heygarðshornið. Sem er alls ekki svo slæmt því karlinn er býsna sleipur í sveitarómantíkinni.

Það sem mestu máli skiptir er að The Gunman and Other Stories bætir fyrir mistökin sem forverinn var í nær einu og öllu. Lögin eru sterkari, yfirbragðið lágstemmdara og vemmilegheitin að mestu horfin. En þó ekki alveg. Rómantík er hið besta mál og ekkert að því að skreyta tónlistina smásírópi þar sem við á en McAloon hefur hætt til að hella heldur ótæpilega úr krukkunni og gerir á stöku stað hér. Þáttur Viscontis veldur þar að auki vonbrigðum, útsetningar og upptökustjórn á stöku stað hallærislega gamaldags.

Á plötunni eru samt alveg nógu margar Prefab Sprout-perlur til að hægt sé að mæla með henni við unnendur McAloons, lög á borð við "Cowboy Dreams", "Love Will Find Someone For You" og "The Gunman".***

Skarphéðinn Guðmundsson