Hér segir af því hvernig draumur um hvalveiðar dofnar í samskiptum við útlendinga sem álíta hvalveiðar kannski meira en alls ekki minna en morð.

Það er í hæsta máta ólíklegt að við Íslendingar eigum eftir að veiða stórhveli á nýjan leik. Þetta segi ég nú bara af því, að mér hefur lærzt að segja aldrei aldrei.

Fyrir skömmu heimsóttu Ísland enskir vinir mínir og lágu leiðir okkar um þessar hefðbundnu ferðamannaslóðir frá Reykjavík; Þingvellir, Gullfoss og Geysir, Skálholt og Bláa lónið. Allt vakti þetta mikla hrifningu gestanna.

Það var svo í bíltúr um höfnina að það syrti í álinn. Þetta eru hvalbátar, sagði ég, þegar þeir blöstu við sjónum og hvalaskoðunarbáturinn bundinn hinum megin. Þessir eru notaðir til að veiða hvali og þessi til að skoða þá. Reyndar veiðum við ekki hvali sem stendur, en hvalbátunum er haldið við og þeir geta lagt úr höfn með skömmum fyrirvara, þegar hvalveiðar verða leyfðar á ný.

Þegar hér var komið sögu, fann ég þrúgandi þögnina líkt og íspoka á hnakkanum. Og þegar ég leit við; mikið rétt - gestir mínir voru ekki að horfa niður á bryggju, heldur störðu þeir á mig opinmynntir og með uppglennt augu. Þegar hvað? gat svo annar þeirra stunið upp.

Hvalveiðar, sagði hinn. Þið fáið aldrei að hefja hvalveiðar aftur.

Fáið ekki, fáið ekki. Auðvitað hreyfði þessi fullyrðing við mér og framkallaði lærðan fyrirlestur um nýtingu sjávarauðlinda og sjálfsákvörðunarrétt fullvalda þjóða. En það var eins og að stökkva vatni á gæs. Það kom nefnilega í ljós, að gestir mínir eru félagar í náttúruverndarsamtökum, sem m.a. hafa tekið hvalina upp á arma sína. Mér var einfaldlega tilkynnt að hvalveiðar væru hvorki meira né minna en skipulögð morð á skynugum verum. Ekki skepnum, heldur viti bornum verum.

Og sem ég skynjaði alvöruþungann í þessum gestum mínum, minntist ég þess, að ég talaði einu sinni við Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, eftir fund hans í London með enskum starfsbróður sínum, sem þá var; Robin Cook. Sagði Halldór þá m.a. að hvalamálin hefði borið á góma og væru Bretar ósveigjanlegir í andstöðu sinni við hvalveiðar. Man ég að Halldór gat þess, að það væri með ólíkindum, hvað Bretar væru blindir á öll rök málsins; skynsemi þeirra fyki út í veður og vind fyrir hreinum tilfinningahita. Sá ég nú að ég stóð í sömu sporum og utanríkisráðherra minn og ákvað að draga í land og reyna ekki frekar, að fá gestina til að hætta að berja sínum brezku hausum við hvalveiðisteininn. Ég bauðst því ekki til að skutla þeim upp í Hvalfjörð að sjá hvalstöðina!

Hugsaði ég svo ekkert um hvali, fyrr en leið mín lá til Húsavíkur. Ósköp fannst mér bæjarbragurinn daufur. En fyrir neðan bakka ólgaði allt af lífi og fjöri. Ekki voru það sveitamenn að sækja sér í kaupstaðinn. Þær ferðir lögðust af þegar kaupfélagið fór á hausinn. Og ekki voru þetta Húsvíkingar sjálfir að gera sér glaðan dag. Nei, þarna var allt uppfullt af útlendingum, sem voru ýmist að koma eða fara í hvalaskoðunarferðir.

Ég skellti mér í eina og sigldi út á Skjálfandann með Náttfara, sem var stútfullur af útlendingum.

Þarna voru m.a. þýzkar mæðgur og þetta var fimmta hvalaskoðunarferðin þeirra á jafnmörgum dögum. Alveg æðislegt!

Klukkan þrjú heyrist kallað og við rennum öll á borðstokkinn til að berja hvalinn augum. Reyndar bara hrefna, en útlendingarnir taka gleði sína. Ég stend milli Frakka og Þjóðverja sem mælast við á enska tungu um drauminn að sjá stórhveli næst. Fallega myndi skutullinn syngja á leiðinni í þessa skepnu, segi ég við sjálfan mig, en þó nógu hátt til þess að borðstokksnautar mínir mega heyra. Þvílík áhrif! Ég veit varla hvaða klám eða guðlast ég hefði þurft að setja út úr mér til þess að ná þessum viðbrögðum. Viltu virkilega drepa þennan hval? spyr þýzka stúlkan steini lostin. Unnusti hennar og Frakkinn horfa á mig manndrápsaugum og ég sé að sá franski setur hendur á mjaðmir líkt og þeir gera í bíó áður en þeir kasta vesalingnum í kvikmyndinni einhverjar þingmannaleiðir í burtu.

Það fer ekkert á milli mála, að hér er hvorki staður né stund til þess að rökræða um nýtingu sjávarfangs. Spaug, bara spaug, muldra ég, en tel tryggara að standa undir stýrishúsinu og snúa ekki baki í samferðamenn mína. Ég sé einhver orðaskipti og augngotur; vafalaust eru þau að býsnast yfir því hvers konar voðamenni sé með þeim um borð. Svo er aftur kallað og ferðamennirnir raða sér við borðstokkinn með myndavélarnar og hrifningarópin. Ég sé ekki betur, en þýzki herrann gefi mér gætur milli þess sem hann horfir til hafs og hvíslar einhverju í eyra vinkonu sinnar. Hann treystir mér ekki, hugsa ég. Þau halda að ég sé með skutulinn innanklæða og muni þegar minnst varir ryðjast líkt og launmorðingi að lunningunni og einhenda skutlinum í augnayndi þeirra þarna úti á sjónum.

Ég tek það til bragðs að blístra kæruleysislega og horfa beint upp í loftið. Svo hneppi ég regnstakknum rólega frá mér - þau hljóta að sjá að ég er vopnlaus maður.

Aldrei gætu Húsvíkingar gert út á þetta ferðamannalíf með því að drepa hvali. Við eigum ekki eftir að hefja hvalveiðar aftur. Ég hef ekki látið sannfærast af manna völdum. Það er Keikó, sem gerir útslagið. Keikó kemur alltaf til baka, þegar reynt er að sleppa honum á haf út. Keiko er hvalur og hann veit, að hann er óhultur hjá okkur, en ekki hinum hvölunum í sjónum.

Freystein Jóhannsson freysteinn@mbl.is