BÆJARRÁÐ Sandgerðis hefur samþykkt að láta gera deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Þóroddsstaða. Meginhluti lands jarðarinnar Þóroddsstaða er í eigu Sandgerðisbæjar. Býlið sjálft og land umhverfis er þó í einkaeigu.

BÆJARRÁÐ Sandgerðis hefur samþykkt að láta gera deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Þóroddsstaða.

Meginhluti lands jarðarinnar Þóroddsstaða er í eigu Sandgerðisbæjar. Býlið sjálft og land umhverfis er þó í einkaeigu. Bærinn er um þrjá kílómetra norðan við Sandgerði, við veginn til Garðs.

K-listinn sem skipar meirihluti bæjarstjórnar lagði tillöguna fram í bæjarráði og var hún samþykkt samhljóða.

Gert er ráð fyrir að skipulögð verði sumarhúsabyggð á landinu og orlofshús til útleigu. Einnig er rætt um að tekið verði frá svæði fyrir golfvöll, í samráði við Golfklúbb Sandgerðis sem óskað hefur eftir auknu landrými. Tekið er fram að gera eigi ráð fyrir svæði undir tjaldstæði, tjaldvagna og fellihýsi, auk nauðsynlegra þjónustubygginga.

Í samþykkt bæjarráðs er lögð áhersla á góða útfærslu og að svæðið verði hannað meðal annars með tilliti til fjöru, tjarnar og aðkomu að golfvelli.

Byggingafulltrúa var falið að láta gera breytingar á aðalskipulagi, ef þess yrði talin þörf, til að nýta svæðið sem best til útivistar og frístundabyggðar.