NÁGRANNI minn og kunningi er einn af þeim sem keypt hefur sér lítið sumarhús á Suður-Spáni. Á hverju hausti fara þau hjónin út til Spánar og eyða íslenska vetrinum í hlýjunni þarna suður frá.

NÁGRANNI minn og kunningi er einn af þeim sem keypt hefur sér lítið sumarhús á Suður-Spáni. Á hverju hausti fara þau hjónin út til Spánar og eyða íslenska vetrinum í hlýjunni þarna suður frá. Nágranninn, sem er iðnaðarmaður og kominn á efri ár, gerir nokkuð bráðsnjallt áður en hann fer utan.

Það eru tvær bifreiðar á heimilinu. Þegar þau hjónin yfirgefa landið í nóvember þá leggur hann númeraplötur bílanna til geymslu inní næstu skoðunarstöð og tekur þær svo út þegar þau koma aftur, sem er að öllu jöfnu í byrjun apríl. Þau eru erlendis að jafnaði fimm mánuði á ári. Með þessari fyrirhyggju spara þau sér á annað hundrað þúsund krónur á ári.

Eftir að hafa skoðað þetta mál nánar þá er mjög einfalt að gera þetta fyrir þann sem ekki hyggst nota bílinn sinn í mánuð eða lengur. Bifreiðinni er komið fyrir í bílskúrnum eða á planinu, númerin skrúfuð af og farið með þau til næstu skoðunarstöðvar. Skoðunarstöðin gefur kvittun og er geymslugjald á númerum aðeins 600 kr. Skoðunarstöðin tilkynnir bæði skattinum og tryggingafélaginu. Falla þá niður allar bifreiðatryggingar, svo og bifreiðagjöld þann tíma sem númerin liggja inni.

Algengt er að á heimili séu tveir bílar, sumarbíll og jeppi. Mætti hugsa sér að sumarbílnum sé lagt þá mánuði meðan göturnar eru vaðandi í tjöru og slabbi og jeppinn þá notaður. Þetta er ekki bara sparnaður í beinhörðum peningum, það eru líka helmingi minni þrif og umstang við bílana.

Hvað þá með alla gömlu bílana sem liggja ónotaðir á bílasölunum svo mánuðum skiptir? Garðbæingur.

Góð þjónusta

Ég varð fyrir því óhappi að brjóta gleraugun mín og rétt á eftir átti ég miðnæturflug til Kaupmannahafnar. Mér hafði verið tjáð að unnt væri að velja sér gleraugu í gleraugnaversluninni í Mjódd og sækja þau í verslun þeirra í fríhöfninni. Fyrr um daginn valdi ég mér gleraugu og eftir símhringingar suður á völl var ég fullvissuð um að gleraugun yrðu tilbúin þegar ég sækti þau um miðnættið sama dag. Ég var hæstánægð með þetta enda bagalegt að vera gleraugnalaus. Þegar komið var upp á völl kom hins vegar í ljós að pöntun mín hafði farist fyrir og engin gleraugu til. Ég var ansi svekkt enda gert mér vonir að geta lesið í vélinni. Afgreiðslustúlkunni þótti þetta mjög miður og lofaði að senda gleraugun út. Ég var síðan aðeins búin að vera rétt rúman sólarhring í veldi Þórhildar Danadrottningar þegar kom hraðsending með gleraugun, afsökunarbeiðni, auk nokkurra fallegra smágjafa. Þetta kalla ég góða og snögga þjónustu enda geta mannleg mistök alltaf átt sér stað. Takk fyrir góða þjónustu.

Guðrún Gyða

Árnadóttir.

Kvenúr í óskilum

Kvenarmbandsúr fannst í Mjóddinni í byrjun ágúst. Eigandi getur vitjað þess í afgreiðslu Heilsugæslustöðvarinnar í Mjódd. Síminn þar er 567-0440.

Lesgleraugu í óskilum

LESGLERAUGU í gylltri umgjörð eru í óskilum í Rauða kross búðinni Hverfisgötu 39. Upplýsingar í búðinni, en þar er opið þri.-fös. frá kl. 13:30-17:30. eða í síma 551-1414.

Nike-úlpa týndist

HVÍT, þunn Nike-úlpa með hettu tapaðist á leiðinni frá Melaskóla að Tómasarhaga. Úlpan er merkt H.F. að innanverðu. Í erminni var grá húfa og grænir vettlingar í vasa. Skilvís finnandi hafi samband í síma 561-2125.

Gsm-sími týndist

NOKIA 3330 hvarf úr gryfjunni í Fellaskóla föstudaginn 31. ágúst sl. Upplýsingar í síma 698-3473 eða 567-0764.

Kanína í óskilum

HVÍT kanína fannst í Drápuhlíð 31. ágúst sl. Hún er með grátt á eyrum og ljósbrúna bletti á neðanverðu baki. Uppl. í síma 561-0652.