SAMÞYKKT var á stjórnarfundi Landsvirkjunar í gær að fela forstjóra fyrirtækisins að leggja fram kæru til umhverfisráðherra vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

SAMÞYKKT var á stjórnarfundi Landsvirkjunar í gær að fela forstjóra fyrirtækisins að leggja fram kæru til umhverfisráðherra vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Tillagan var samþykkt samhljóða með fjórum atkvæðum en tveir stjórnarmanna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir stjórnarmenn hafa farið afar ítarlega yfir fyrirliggjandi drög að mjög efnismikilli kæru og niðurstaðan orðið sú að stjórnin samþykkti að kæra til umhverfisráðherra úrskurð Skipulagsstofnunar. Hann segir að nú verði lögð lokahönd á kæruna og henni skilað í dag eða á morgun, en þá rennur kærufrestur út.

Að sögn Friðriks byggist kæran annars vegar á lagalegum ástæðum þar sem Landsvirkjun leggi annan skilning í lögin en skipulagsstjóri hafi gert í úrskurði sínum. "Við viljum láta reyna á þann skilning því það hefur auðvitað ákaflega mikla þýðingu að lögin séu skýr. Ekki eingöngu vegna þessa máls sem hér er verið að fjalla um, heldur vegna mats á umhverfisáhrifum annarra stórra framkvæmda á næstu árum."

Ítarlegri upplýsingar um afleiðingar virkjunarinnar

Þá segir Friðrik að hins vegar komi fram í kærunni ítarlegri upplýsingar um einstök atriði framkvæmdarinnar og efnahagslegar afleiðingar virkjanaframkvæmdanna. "Ítarlegri upplýsingar munu fylgja kærunni en þær sem voru í matsskýrslunni. Nú leggjum við fram ítarlegri upplýsingar um vissa þætti málsins og komum þannig til móts við þær forsendur sem úrskurður Skipulagsstofnunar virðist byggjast á. En aðalatriði málsins er það að úrskurður Skipulagsstofnunar standist ekki lög," segir Friðrik og segist hann telja kæruna byggjast á mjög sterkum málefnalegum forsendum, bæði lögfræðilegum og efnislegum.

Miðað við framkvæmdir við byggingu álvers í Reyðarfirði og að fyrirhugaðar stækkanir Norðuráls og ÍSAL gangi eftir er ljóst að nýta þarf alla tiltæka virkjunarmöguleika á næstu árum, en framleiðsla á áli gæti aukist um 770 þúsund tonn á ári fram til ársins 2012 gangi þær fyrirætlanir eftir.

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls hf., segir Kárahnjúkavirkjun eina raunhæfa kostinn í stöðunni vegna álvers í Reyðarfirði. Hann segist jafnframt bjartsýnn á að kæra Landsvirkjunar muni skýra frekar umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, þannig að hægt verði að sýna með faglegum hætti fram á að mögulegt sé að byggja virkjunina í viðunandi sátt við umhverfið.