Andri Sigþórsson, sem gekk til liðs við Molde á dögunum skoraði annað mark sitt fyrir íslenska landsliðið í fjórum leikjum en hann var einnig á skotskónum í síðasta mánuði þegar Íslendingar og Pólverjar gerðu jafntefli, 1:1.

Andri Sigþórsson, sem gekk til liðs við Molde á dögunum skoraði annað mark sitt fyrir íslenska landsliðið í fjórum leikjum en hann var einnig á skotskónum í síðasta mánuði þegar Íslendingar og Pólverjar gerðu jafntefli, 1:1.

"Ég þakka liðsheildinni þennan sigur. Við vorum einn pakki sem lagði sig allan fram og uppskeran var eftir því. Það var frábær barátta í liðinu, ólíkt því sem var til að mynda í leiknum við Pólverja, og menn voru virkilega straðráðnir í að ná góðum úrslitum," sagði Andri í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn.

"Hlutverk mitt er að vera einn uppi á toppi og tæta í varnarmönnunum og ég held að mér hafi tekist að gera það nokkuð vel. Það skemmdi ekki fyrir að ná að skora. Ég var réttur maður á réttum stað og þó svo að ég hafi ekki þurft að gera annað en að ýta knettinum yfir línuna þá tel ég að kannski hafi ég unnið fyrir markinu annars staðar úti á vellinum. Þetta var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar en ég má til með að nefna Eyjólf Sverrisson. Hann dreif liðið áfram að krafti og leikmenn með svona baráttuanda eru vandfundnir."

Eruð þið farnir að gæla við að ná einu af tveimur efstu sætunum í riðlinum?

"Markmiðið fyrir keppnina var að ná þriðja sætinu og við stefnum ótrauðir á að ná því markmiði. En fyrst og fremst þurfum við að halda áfram að spila sem ein liðsheild og taka einn leik fyrir í einu. Við eigum eftir tvo erfiða útileiki. Ef okkur tekst að ná góðum úrslitum á móti N-Írum og náum jafnvel að sigra er allt opið fyrir leikinn við Dani. Þeir verða að vinna þann leik og koma til með að sækja og það mundi henta okkur vel."

Fjórir landsleikir og tvö mörk. Þú hlýtur að vera ánægður með það og hefur þetta gefið þér gott sjálfstraust?

"Yfirleitt vantar ekki mikið upp á sjálfstraustið en ég hef ekki verið með 100% sjálfstraust upp við markið hjá Salzburg. Ég ætla að vona að með landsliðinu og hjá Molde séu nýir tímar framundan og að ég geti byrjað að skora aftur."

Hvernig gekk þér sjálfum að ná einbeitingu fyrir leikinn þar sem þú varst sólarhringnum áður að skrifa undir við Molde?

"Það var svolítið erfitt. Ég reyndi að ýta þessu frá mér og ég held að mér hafi tekist það ágætlega."