"ÉG held að það sé ekki spurning að þessi leikur fer í bókina sem eftirminnilegasti leikurinn sem ég hef spilað. Að vinna Tékka hlýtur að vera eins og að vinna titil í þessari deild sem maður er að spila. Ég held að við megum vera stoltir af frammistöðu okkar," sagði Arnar Þór Viðarsson við Morgunblaðið eftir leikinn.

Arnar var að leika sinn 15. landsleik og eins og fleiri í íslenska liðinu lék hann sinn besta landsleik frá upphafi.

"Það var frábær samheldni í liðinu og allir að berjast hver fyrir annan frá fremsta til aftasta manns. Allir lögðu sig virkilega fram og um leið og Tékkarnir fengu svona kröftuga mótspyrnu fóru þeir að pirrast sem lauk með því að Koller var rekinn útaf. Lið eins og Tékkar eiga vel að geta unnið leiki þó svo að þau séu einum leikmanni færri."

Tékkar byrjuðu mjög vel og það hefur örugglega komið smáskrekkur í ykkur til að byrja með.

"Við lögðum upp með það að vera með bakverðina alveg í línunni og loka þar með hornunum þannig að Koller og Nedved gætu ekki stungið sér upp í þau eins og þeir gerðu mikið í fyrri leiknum. Við náðum að loka því en það sem gerðist þá var að Nedved og Poborsky fóru ofar á völlinn til að fá boltann. Það var erfitt að eiga við þá fyrsta korterið og Poborsky fór til að mynda tvisvar eða þrisvar sinnum framhjá mér á hraðanum. Þegar Koller fór útaf gátum við farið ofar á völlinn og sett þar með meiri pressu á þá."

Ykkur fjórum í öftustu vörninni hlýtur að hafa létt að losna við Koller.

"Það er ekki hægt að neita því enda maðurinn engin smásmíði. Ég hef æft með honum og veit að það er ekki auðvelt að eiga við hann. Maður hrundi oft af honum á æfingum þegar maður hélt sig hafa boltann. En það getur oft verið erfitt að spila við lið sem vantar einn leikmann. Við leystum það hins vegar mjög vel enda héldum við áfram að spila sem ein heild en fórum ekki að spila sem einstaklingar. Markið hjá Jolla kom á frábærum tíma þannig að við gátum farið í seinni hálfleikinn aðeins rólegri."

Þú kvartaðir við aðstoðardómarann rétt áður en dómarinn lyfti upp rauða spjaldinu á Koller. Sást þú hvað hann gerði?

"Það voru einhverjar stympingar á milli Kollers og Hermanns. Ég sá að Koller hrækti á Hermann og ég leit strax á línuvörðinn. Ég sá að hann var að horfa á þetta atvik þannig að ég rauk strax til hans. Ég held að það hafi hjálpað til því að oft vilja aðstoðardómarar ekki skipta sér um of af því sem er að gerast inni á vellinum, sérstaklega þegar stærri liðin eiga í hlut."

Guðmundur Hilmarsson skrifar