RISINN Jan Koller í liði Tékka og leikmaður með Dortmund í Þýskalandi kannast ekki við að hafa hrækt á Hermann Hreiðarsson en ítalski dómarinn Domenico Messina rak Koller útaf á 38. mínútu.

RISINN Jan Koller í liði Tékka og leikmaður með Dortmund í Þýskalandi kannast ekki við að hafa hrækt á Hermann Hreiðarsson en ítalski dómarinn Domenico Messina rak Koller útaf á 38. mínútu. Aðstoðardómarinn gaf Messina merki um að Koller hefði spýtt á Hermann og eftir að dómarnir höfðu rætt saman dró Messina upp rauða spjaldið.

"Boltinn var hvergi nærri en þegar leikmaðurinn gaf mér olnbogaskot í annað sinn um leið og hann hljóp framhjá mér svaraði ég fyrir mig og sló til hans í öxlina. Ég hélt að við fengjum báðir að fjúka útaf þegar dómarinn stöðvaði leikinn en mér brá mjög í brún þegar dómarinn ásakaði mig um að hafa hrækt á leikmanninn og sýndi mér bara rauða spjaldið. Ég hrækti ekki á leikmanninn," sagði Koller eftir leikinn. Karel Poborsky samherji Kollers og liðsmaður Lazio á Ítalíu vildi ekki skella skuldinni á Koller þó svo að kaflaskil hefðu orðið þegar hann var sendur af leikvelli.

"Á fyrstu 20 mínútunum náðum við að skapa okkur fjögur góð færi sem við hefðum átt að nýta betur."