Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Eimskips, segir að það komi Íslendingum vel að flutningskostnaður á meginleiðum lækki en fraktverð á mörgum helstu siglingaleiðum heims hefur farið lækkandi á árinu.
Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Eimskips, segir að það komi Íslendingum vel að flutningskostnaður á meginleiðum lækki en fraktverð á mörgum helstu siglingaleiðum heims hefur farið lækkandi á árinu.
Í GREIN í The Financial Times kemur fram að afkastageta í fraktflutningum fer nú vaxandi á sama tíma og eftirspurnin hefur heldur dvínað.

Í GREIN í The Financial Times kemur fram að afkastageta í fraktflutningum fer nú vaxandi á sama tíma og eftirspurnin hefur heldur dvínað. Þetta hefur meðal annars orðið til þess að fraktverð á mörgum helstu siglingaleiðum hefur haldið áfram að lækka á öðrum fjórðungi ársins. Ástæðan er fyrst og fremst tilkoma nýrra risafraktflutningaskipa, einkum á siglingaleiðunum milli Evrópu og Asíu og Asíu og Bandaríkjanna. Þannig hefur verðið frá Evrópu til Asíu lækkað um 8% og um 6% frá Asíu til Evrópu. Verðið í fraktinni frá Asíu til Bandaríkjanna lækkaði um 6% en raunar aðeins um 1% hina leiðina. Sérfræðingar telja að þessi þróun muni halda áfram, þ.e. að framboðið í flutningum verði mun meira en eftirspurnin.

Verð í flutningum um Atlantshaf hefur haldist mun stöðugra, einkum vegna þess að hin nýju risaskip eru einatt of stór fyrir evrópskar hafnir eða flutningsgeta þeirra of mikil fyrir einstök markaðssvæði, segir The Financial Times.

Kemur sér vel fyrir Íslendinga

Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Eimskips, segir að það hafi orðið lækkun á flutningsgjöldum á síðustu árum og áratugum, bæði hér á landi og erlendis vegna stækkunar skipa og þar með aukinnar hagkvæmni í rekstri. "Það kemur sér vel, bæði fyrir okkur Íslendinga sem aðra, að flutningskostnaður á meginleiðum lækki. Stór hluti af flutningskostnaði er vegna framhaldsflutninga með skipum annarra fyrirtækja, til dæmis þeirra sem sigla milli Asíu og Evrópu. Ekki er þó hægt að gera ráð fyrir að stækkun skipa í siglingum á alþjóðaleiðum verði þess valdandi að uppstokkun verði í siglingum til og frá Íslandi. Þessi risastóru skip munu ekki geta haft viðkomu nema í örfáum höfnum erlendis vegna skorts á hafnaraðstöðu og tækjabúnaði."

Aðspurður segir Þorkell að Eimskip hafi nýlega tekið í notkun stærri og hagkvæmari skip sem muni til næstu ára styrkja stöðu félagsins í alþjóðlegri samkeppni. "Með aukinni hagkvæmni í alþjóðasiglingum á meginleiðum mun heildarhagkvæmnin aukast enn frekar fyrir Íslendinga og draga úr þeirri hindrun sem fjarlægð landsins frá öðrum þjóðum hefur haft á samkeppnisstöðu þjóðarinnar."