Landsliðsmenn Íslands fagna sigrinum á Tékkum sl. laugardag. Í Tékklandi ríkir alls enginn fögnuður með úrslitin.
Landsliðsmenn Íslands fagna sigrinum á Tékkum sl. laugardag. Í Tékklandi ríkir alls enginn fögnuður með úrslitin.
SIGUR Íslendinga á Tékkum var forsíðufrétt allra helstu dagblaða Tékklands á gær. Blaðamenn spara síst stóru orðin í umfjöllun sinni um tékkneska liðið og tala um mestu niðurlægingu í tékkneskri knattspyrnusögu og sum þeirra krefjast afsagnar þjálfarans.

Forsíðufréttin á þeim tveimur blöðum sem komu út á sunnudaginn, Super og Blesk , var "Skelfilegt burst" og "Niðurlæging". Á innsíðum var nánari umfjöllun um leikinn og þar sagði blaðamaður Blesk orðrétt: "Chovanec (þjálfari Tékka) og strákarnir hans sáu okkur fyrir mestu niðurlægingu sem tékkneska landsliðið hefur upplifað í sögu knattspyrnu hér í landi. Fyrir leikinn var nóg gasprað um vilja til að tryggja okkur sæti í úrslitakeppni HM, en þegar á leikvöllinn var komið sást ekkert til þess vilja. Eftir fyrsta markið var eins og leikmönnum (tékkneska liðsins) dytti ekkert annað í hug en að bíða eftir að boltinn dytti af sjálfu ser í mark Íslendinga. Afsakanir vegna brottreksturs Kollers eru gagnslausar. Þjálfarinn ásamt leikmönnum sínum á að taka út sína refsingu fyrir þessa niðurlægingu, réttast væri að þeir kæmu til Teplice frá Íslandi, þar sem leikurinn gegn Möltu fer fram, fótgangandi." Í gær er fréttin um tapið enn forsíðuuefni allra blaðanna með orðum eins og "katastrofa", "ömurlegt" og eitt blaðið gengur svo langt að hafa í frammi hótanir til þjálfarans á forsíðu sinni. "Núna ert þú, Chovanec, kominn í snöruna og einnig möguleikar okkar á því að komast á HM." Blaðamenn segja lítið um leik Íslendinga en ráðast af öllum mætti á slaka frammistöðu sinna manna. Aðeins Milan Baros (einn besti leikmaður Tékka í leiknum) viðurkennir að íslenska vörnin hafi verið sterk og lið Tékka hafi skort hugmyndaflug til að brjóta vörn Íslands á bak aftur. "Þessi leikur var eins og martröð," bætir Baros við. Chovanec, þjálfari, segir íslenska liðið hafa í engu komið á óvart, sínir leikmenn hafi bara verið of uppteknir af sjálfum sér og ekki farið eftir fyrirmælum. Hann bætir einnig við að íslenska liðið sé slakt, jafnvel slakara en lið Möltu.

Brottvikning Kollers fær talsverða umfjöllun og virðist enginn skilja hvers vegna honum var vikið af velli. Koller fullyrðir að hann hafi margoft fengið tilgangslaus högg í bakið frá Hermanni Hreiðarssyni og í eitt sinn sneri Koller sér við og sló til baka; "Svo flautaði dómarinn og ég fékk að sjá rauða spjaldið. Ég trúði ekki mínum eigin augum," segir Koller. Aðeins einn blaðamaður bendir honum á að vitni að atburðinum segi að hann hafi hrækt á Hermann. "Það er af og frá, ef einhver segir það þá hefur honum missýnst. Það versta var að ég hitti hann ekki einu sinni þegar ég ætlaði að slá til hans." Koller telur að íslenska liðið hafi haft það að markmiði að æsa leikmenn Tékka upp og koma einhverjum þeirra útaf. "Arnar Viðarsson, sem lék með mér í Lokeren á sínum tíma, varaði mig við fyrir leikinn. Hann sagði að ég mætti ekki taka neitt í leiknum persónulega, núna berðist hver fyrir sína þjóð," sagði Koller.

Börkur Gunnarsson skrifar frá Tékklandi