[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GUNNAR Tryggvason verkfræðingur skrifar pistil á vefsíðu Samfylkingarinnar, sem nefnd er politik is. Þar fjallar hann um atvinnuástandið.

GUNNAR segir: "Nú berast fréttir af fjöldauppsögnum hjá Áburðarverksmiðjunni. Flestir þeirra sem verða fyrir barðinu eru óbreytt verkafólk, sumir hverjir með mjög langan starfsaldur (sá elsti 34 ár). Eflaust hafa margir þeirra ætlað að ljúka starfsævinni á þessum vinnustað en verða nú að fara á stúfana og leita sér að vinnu. Atvinnulaus miðaldra verkamaður með mjög sérhæfða starfsreynslu er ekki öfundsverður af hlutskipti sínu."

Atvinnutækifæri ekki við hvert fótmál

GUNNAR heldur áfram: "Þau eru nefnilega ekki við hvert fótmál, atvinnutækifærin fyrir ófaglærða. Við búum í nýtæknivæddu landi þar sem vöxtur atvinnulífsins er mestur á sviði upplýsingatækni og hátæknifyrirtækja. Umræðan hefur tekið mið af þessu og þjóðarsálin talið að framtíðarhagsældin felist eingöngu í hagnaði af ferðaþjónustu og hátækniiðnaði. Gamli góði "hard core" stálverkmaðurinn eða fiskverkakonan heyra sögunni til og eiga sér ekki tilvörurétt á Íslandi framtíðarinnar. Skipbrot nýja hagkerfisins gefur okkur hins vegar ástæðu til að staldra við og líta um öxl. Við höfum jú lært allavega tvennt á síðustu mánuðum: (1) að við lifum ekki lengi á væntingafyrirtækjum og (2) hið yndislega íslenska ferðamannasumar er bara skitnir þrír mánuðir. Reyðarál ætlar sér að ráða til sín hundruð ófaglærðra starfsmanna ef af byggingu álversins í Reyðarfirði verður. Fyrirtækið hefur legið undir ámælum fyrir að þar sköpuðust tiltölulega fá störf fyrir háskólamenntaða og faglærða. Aðrir létu hafa það eftir sér að störf í kerskálum álvera væru ekki þau sem við vildum bjóða börnum okkar í framtíðinni og enn aðrir ætluðu í staðinn að halda ráðstefnu um atvinnuástandið á Austurlandi. Hvar er virðingin fyrir óbreyttu verkafólki? Sverrir Hermannsson var sem iðnaðarráðherra ef ég man rétt gagnrýndur fyrir að reyna að laða til sín erlenda fjárfesta með því að kalla Ísland "Singapúr norðursins"."

Auka ber eftirspurn

LOKS segir Gunnar: "Áttar sig enginn á því í þessu landi frjálsrar samkeppni að eina raunhæfa leiðin til að jafna kjörin er að auka spurn eftir ódýrasta vinnuaflinu? Sverrir var þar í hlutverki markaðssósíalistans því að hann veit að hvorki álverin né fiskvinnslan getur í frjálsu hagkerfi gengið að verkafólki vísu. Laun þess til lengri tíma ákvarðast af eftirspurninni einni saman. Aukum hana."