ÞAÐ var sannkallað markaregn sem knattspyrnukonur í efstu deild buðu upp á í síðustu umferð Íslandsmótsins á sunnudag. Fyrir umferðina var ljóst að Breiðablik yrði meistari og því fékk liðið afhentan Íslandsbikarinn þrátt fyrir að tapa lokaleiknum gegn Stjörnunni 4:0. KR gerði góða ferð til Grindavíkur og sigraði 12:0 á meðan Valur hafði betur gegn FH 9:0 og ÍBV sigraði Þór/KA/KS 8:1.

Alls voru 34 mörk skoruð í þessari síðustu umferð mótsins. Fjögur þeirra komu á Kópavogsvelli þar sem Elfa B. Erlingsdóttir stal senunni ásamt félögum sínum úr Stjörnunni. Reyndar byrjaði Breiðablik betur og komst Björg Ásta Þórðardóttir ein í gegnum vörn Stjörnunnar strax á 7. mínútu en sendi boltann yfir markið. Aðeins mínútu síðar komst Elfa í svipað færi fyrir Stjörnuna og brenndi einnig af. Henni urðu þó ekki á nein mistök tæpum 20 mínútum síðar er hún skoraði úr mun þrengra færi eftir að leika á tvo Blika upp að endamörkum og skjóta svo í markið. Aðeins fimm mínútum síðar var Elfa aftur á ferðinni er hún skaut föstu skoti utan teigs. Boltinn hafnaði neðst í markhorni Blika og kom Dúfa Ásbjörnsdóttir engum vörnum við.

Elfa hafði ekki lokið hlutverki sínu í leiknum því á 62. mínútu sendi hún glæsilega sendingu á Lilju Kjalarsdóttur sem komst ein í gegnum vörn Blika og vippaði örugglega yfir Dúfu. Á lokamínútu leiksins bætti Stjarnan fjórða markinu við er Freydís Bjarnadóttir skoraði með hnitmiðuðu skoti af vítateigslínunni.

Nokkurt andleysi var yfir Blikum í leiknum sem Stjarnan nýtti sér óspart. Elfa var besti maður vallarins en auk hennar lék vörn Stjörnunnar nánast óaðfinnanlega ásamt því að Steinunn Jónsdóttir vann boltann oft vel á miðjunni. Steinunn lék sinn síðasta leik með Stjörnunni en hún ætlar að leggja skóna á hilluna í kjölfar þessa móts.

Þrátt fyrir að Stjarnan hafi unnið leikinn stóð lið Blika uppi sem Íslandsmeistari og fékk að loknum leik afhentan bikar. Liðið hefur orðið fyrir nokkurri blóðtöku að undanförnu. Nokkrir leikmenn hafa farið utan í háskólanám ásamt því að meiðsli hafa gert liðinu erfitt fyrir. Tímabilinu er þó ekki lokið fyrir þær því Blikar keppa gegn Val í bikarúrslitaleik hinn 15. september.

Olga markahæst

Í hinum leikjum lokaumferðarinnar urðu engin óvænt úrslit. KR tryggði sér örugglega annað sætið með góðum sigri á Grindavík. Olga Færseth skoraði þrennu og endar tímabilið langmarkahæst með 28 mörk. Hrefna Jóhannesdóttir var einnig á skotskónum og skoraði fjögur mörk. KR hafnaði því aðeins stigi á eftir Blikum og segja má að jafnteflið gegn Val í næstsíðustu umferð hafi verið liðinu dýrkeypt. Grindavík endar hins vegar í sjötta sæti og sleppur við fallið í 1. deild.

ÍBV vann Þór/KA/KS 8:1 og hafnaði þar með í þriðja sæti deildarinnar. Bryndís Jóhannsdóttir skoraði fernu og endar því í þriðja sæti yfir markahæstu menn ásamt Hrefnu Jóhannesdóttur, KR. Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, lætur af störfum eftir þetta tímabil en óvíst er hver tekur við liðinu. Ljóst er að miklar framfarir hafa átt sér stað í Vestmannaeyjum undir hans stjórn og framtíðin því björt þar á bæ. "Ég er ánægður með sumarið en niðurstaðan er ekki sú sem við stefndum að," sagði Heimir. "Við klúðruðum málinu á slæmum sex daga kafla í júlí þar sem við gerðum jafntefli við bæði FH og Val. Ef við hefðum unnið þá leiki hefðum við orðið Íslandsmeistarar. Við verðum bara að byggja á þessu sumri. Við náðum okkar besta árangri frá upphafi núna og ef framfarirnar halda áfram þá nær liðið í titil að ári, það á það svo sannarlega skilið."

Liði Þór/KA/KS bíður það hlutverk að falla niður í 1. deild þar sem það endaði í botnsæti deildarinnar.

Valur endaði sumarið á jákvæðum nótum með því að vinna FH 9:0 og endar í fjórða sæti. Dóra María Lárusdóttir skoraði þrennu í leiknum og var sigur Vals aldrei í hættu. Liðið fór í gegnum síðustu sjö leiki tímabilsins án þess að tapa sem verður að teljast gott eftir afar slaka byrjun. FH hafnar í næstneðsta sæti og leikur því tvo aukaleiki við Hauka um laust sæti í efstu deild að ári en Haukar höfnuðu í 2. sæti 1. deildar.