Ég elska þig, logn, er við ylríka sól hið ilmandi blóm prýðir grænkandi hól, þegar speglandi sjórinn er spenntur og þaninn og spóinn í heiðinni talar við svaninn. Ég hata þig, stormur, því hvað er þitt vald?

Ég elska þig, logn, er við ylríka sól

hið ilmandi blóm prýðir grænkandi hól,

þegar speglandi sjórinn er spenntur og þaninn

og spóinn í heiðinni talar við svaninn.

Ég hata þig, stormur, því hvað er þitt vald?

Að hrekja til skýin um sólarheims tjald,

að brjóta og öskra og hrista og hræða

og hugsunarlaust yfir jörðina' að æða.

Ég elska þig, logn, er í döggvuðum dal

draumnjórunn vekur upp fornaldar tal

og lækurinn dreymandi leikur við steina,

er langt burtu fossar við hamra sig reyna.

Ég hata þig, stormur, sem hristir og ber,

ég hef ekki virðingar ögn fyrir þér,

þó drembinn þú öxlunum ypptir og keisir

og úfinn til skýjanna hvirfilinn reisir.

Ég elska þig, logn, og ég óska, að þú

ætíð mér tækir í hjartanu bú;

þar er oftast nær stormur og feiknstafa fjöldi,

sem fer ekki burt, nema lygni með kvöldi.

Benedikt Gröndal.