ÞRÓUNARFÉLAG Íslands hf. skilaði 1.409 milljóna króna tapi á fyrri helmingi ársins 2001, samkvæmt uppgjöri félagsins.

ÞRÓUNARFÉLAG Íslands hf. skilaði 1.409 milljóna króna tapi á fyrri helmingi ársins 2001, samkvæmt uppgjöri félagsins. Þá hefur verið tekið tillit til tekjufærslu tekjuskatts að fjárhæð 588 milljónir króna vegna lækkunar á tekjuskattsskuldbindingu félagsins sem myndaðist af miklum hagnaði síðustu ára. Verðlækkun hlutabréfa í eigu félagsins var 30% á tímabilinu. Verðlækkun hlutabréfa Þróunarfélagsins sem skráð eru á Aðallista Verðbréfaþingsins var 39,5% á tímabilinu.

Að því er fram kemur í tillkynningu til Verðbréfaþings nam gengistap hlutabréfa alls 1.610 milljónum króna, þar af er innleystur hagnaður vegna sölu hlutabréfa 59 milljónir króna og óinnleyst gengistap 1.669 milljónir króna. Þar veldur mestu að markaðsvirði hlutabréfaeignar félagsins í Opnum kerfum hf. lækkaði um 62%, eða um 1.437 milljónir króna. Á tímabilinu voru keypt hlutabréf fyrir 230 milljónir króna og seld fyrir 283 milljónir. Gengistap félagsins vegna erlendra lána nam 253 milljónum króna.

Eign félagsins í óskráðum erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum er skráð á meðalkaupverði í íslenskum krónum og kemur því gengishækkun þessara eigna vegna lækkunar krónunnar ekki fram í reikningnum. Bókfært virði eigna Þróunarfélagsins í erlendum gjaldeyri er 212 millj. kr. lægra en skuldir félagsins í erlendum gjaldeyri og varð félagið því í reynd fyrir óverulegu tjóni af völdum lækkunar krónunnar.

Í lok tímabilsins nema eignir Þróunarfélagsins 5.012 milljónum króna. Þar af er hlutabréfaeign 3.726 milljónir króna og skuldabréfaeign 1.161 milljónir króna. Eigið fé félagsins nemur 1.827 milljónum króna, eða um 36,4% af heildareignum. Langtímaskuldir félagsins nema 2.205 milljónum króna. Hlutafé félagsins er 1.100 milljónir króna og eru hluthafar í félaginu 462.