Hakan Wretsell, framkvæmdastjóri Strax, var framkvæmdastjóri Ericsson Mobile Phones í Ameríku áður en hann réðst til starfa hjá fyrirtækinu.
Hakan Wretsell, framkvæmdastjóri Strax, var framkvæmdastjóri Ericsson Mobile Phones í Ameríku áður en hann réðst til starfa hjá fyrirtækinu.
GRIPIÐ hefur verið til harðra aðhaldsaðgerða hjá fyrirtækinu Strax á undanförnum mánuðum, að sögn Ingva Tómassonar, forstjóra, stofnanda og stjórnarmanns félagsins.

GRIPIÐ hefur verið til harðra aðhaldsaðgerða hjá fyrirtækinu Strax á undanförnum mánuðum, að sögn Ingva Tómassonar, forstjóra, stofnanda og stjórnarmanns félagsins. Hann sagði á kynningarfundi sem haldinn var fyrir hluthafa í félaginu á fimmtudag, að reynst hafi nauðsynlegt að taka til í rekstrinum, meðal annars með fækkun starfsfólks.

Strax framleiðir og dreifir farsímum og fylgihlutum í þá og er með skrifstofur á Miami, í Hong Kong og Lundúnum og er fjöldi starfsmanna um 45. Skrifstofa fyrirtækisins í Sao Polo hefur verið lögð niður.

Fram kom í máli Hakan Wretsell, framkvæmdastjóra Strax, að ekkert hefði orðið úr sameiningu Strax og fyrirtækisins Mobilestop, en greint var frá því í byrjun þessa árs að Strax, stærsti hluthafinn í Mobilestop, hefði boðist til að kaupa öll hlutabréf þess félags. Hakan sagði að í ljós hefði komið að samlegðaráhrif sameiningar fyrirtækjanna tveggja hefðu ekki verið eins mikil og búist hafði verið við.

Gert ráð fyrir að sala tvöfaldist milli ára

Hakon Wretsell, sem tók við starfi framkvæmdastjóra Strax fyrir sex mánuðum, gerði á fundinum grein fyrir helstu markmiðum Strax og afkomu fyrirtækisins. Hann sagði að áætlað væri að sala fyrirtækisins myndi verða tvöfalt meiri á þessu ári en á því síðasta, um 40 milljónir Bandaríkjadala í ár, um 4 milljarðar íslenskra króna, samanborið við um 20 milljónir dala í fyrra. Þá væri gert ráð fyrir að salan myndi verða tvöfalt meiri á næsta ári en á þessu og að fyrirtækið færi þá að skila hagnaði. Markmiðið væri að Strax yrði leiðandi á sviði fylgihluta fyrir farsíma í heiminum.