TAP af rekstri SR-mjöls nam tæpum 306 milljónum króna á fyrri árshluta en tap af sama tímabili í fyrra nam 186 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir 513 milljónir.

TAP af rekstri SR-mjöls nam tæpum 306 milljónum króna á fyrri árshluta en tap af sama tímabili í fyrra nam 186 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir 513 milljónir. Hagnaður var því af rekstrinum fyrir afskriftir og fjármagnskostnað og nam hann 551 milljón króna en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 205 milljónum króna.

Tekjur félagsins námu 2,3 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðunum og rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnskostnaðar námu 1,8 milljörðum króna. Gjaldfært gengistap tímabilsins, að frádregnum gengishagnaði af verðbréfum, nemur 491 milljón króna. Veltufé frá rekstri var 450 milljónir króna en á sama tímabili í fyrra 106 milljónir króna.

Eigið fé félagins er nú 2,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið er 39,4%.

Í tilkynningu segir að félagið hafi ekki notað lýsi til brennslu í verksmiðjum félagins að undanförnu vegna hækkandi verðs en hins vegar farið út í innflutning á jurtaolíum í þeim tilgangi. Þá segir að gengi krónunnar og hátt olíuverð hafi haft mikil áhrif á afkomu félagsins.

Uppgjör SR-mjöls er í takt við væntingar og kemur ekki á óvart í ljósi gengisþróunar, að því er segir í Morgunpunkum Kaupþings. Jafnframt segir að þróun framlegðar félagsins og veltufjár frá rekstri sé mjög jákvæð. Afkoma félagsins á síðari hluta árs gæti því orðið vel viðunandi að því tilskildu að veiðar og vinnsla gangi vel á haustmánuðum og afurðaverð verði áfram hagstætt.