TVEIR menn, sem játað hafa hjá lögreglu stórfelld innbrot í Reykjavík að undanförnu, voru á laugardag úrskurðaðir í sex daga gæsluvarðhald í þágu ransóknarhagsmuna.

TVEIR menn, sem játað hafa hjá lögreglu stórfelld innbrot í Reykjavík að undanförnu, voru á laugardag úrskurðaðir í sex daga gæsluvarðhald í þágu ransóknarhagsmuna. Málið er stærsta innbrotsmál sem upplýst hefur verið í Breiðholti, Grafarvogi og Mosfellsbæ og hefur aldrei verið lagt hald á eins mikið þýfi við upphaf nokkurs máls eins og í því sem hér um ræðir. Við húsleit heima hjá öðrum mannanna fannst um tugur tölva, prentarar, ljósritunarvélar, skotvopn, erlendur gjaldeyrir, fíkniefni, borðbúnaður og fleira.

Ýmsar ábendingar um hugsanleg afbrot

Mennirnir eru 21 og 24 ára og hafa báðir komið við sögu lögreglunnar. Áður en lögreglan í Breiðholti lét til skarar skríða gegn mönnunum hafði hún haft málið til rannsóknar í tæpan hálfan mánuð. Ýmsar ábendingar höfðu borist henni um mennina og meint glæpsamlegt hátterni þeirra. Sést hafði til bifreiðar sem þeir notuðu við innbrotin en þeir hafa þegar játað bílstuldi auk innbrota. Mennirnir voru djúpt sokknir í fíkniefnaskuldir og munu skuldir annars þeirra hafa numið 2,5 milljónum króna, en með innbrotunum átti að grynnka á skuldunum.