Oasis, tilbúnir í aðra umferð.
Oasis, tilbúnir í aðra umferð.
HLJÓMSVEITIN Oasis er við það að klára upptökur á sinni fimmtu breiðskífu.

HLJÓMSVEITIN Oasis er við það að klára upptökur á sinni fimmtu breiðskífu. Gallagher bræðurnir eru þessa dagana að undirbúa stutta tónleikaferð til þess að fagna tíu ára starfsafmæli sveitarinnar og að sögn eldri og skynsamari bróðurins Noel verða þeir að klára plötuna fyrst. Líklegt þykir að platan, sem enn hefur ekki verið gefið nafn, verði gefin út snemma á næsta ári.

Þetta þykja ansi merkilegar fréttir í ljósi þeirra erfiðleika sem sveitin lenti í á síðasta tónleikaferðalagi en þá yfirgaf Noel sveitina nokkrum klukkustundum fyrir tónleika í Evrópu eftir heiftarlegt rifrildi við yngri bróður sinn.

Noel sagði nýlega í viðtali við breska tónlistartímaritið NME að á síðustu tólf mánuðum hefðu þeir bræður náð að sættast og að hljómsveitin væri þétt sem aldrei fyrr.

"Áður töluðu menn ekki saman og því var mikil vitleysa í gangi," er haft eftir Noel. "En það hjálpar til að hafa nýja liðsmenn í sveitinni. Þá er auðveldara að taka skref aftur á bak og sjá hlutina eins og þeir eru."

Von er á nýrri smáskífu frá Oasis í október, sama dag og afmælistónleikasyrpan hefst.