[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Give Me Liberty eftir Frank Miller. Teiknuð af Dave Gibbons. Bókin var upprunalega gefin út árið 1990, þá í fjórum hlutum. Þessi kilja var gefin út árið '92 af Dell Graphics. Fæst í myndasöguverslun Nexus, Hverfisgötu 103.

ÓVIÐURKENND þjóð meðal þjóðar getur verið afar viðkvæmt mál. Eins og brúsi fylltur nítróglýseríni sem enginn þorir að hrista. Þetta þekkjum við úr mannkynssögunni, þegar skilningur og umburðarlyndi milli tveggja ólíkra menningarhópa er þrotið geta hræðilegir atburðir átt sér stað. Það er synd að við þurfum slík fordæmi úr sögunni til þess að kenna okkur þá einföldu lexíu að virðing við náungann, umburðarlyndi og góðvild í garð annarra er það eina sem getur skapað okkur umhverfi sem við getum búið við sátt. Um leið og fólk gleymir því, eða gengur að því vísu að sitt þjóðfélag sé það "eina rétta", er voðinn vís.

Það eru líklega svipaðar hugleiðingar sem hafa þjakað höfundinn Frank Miller í lok níunda áratugarins. Þá var kalda stríðinu nýlokið, ekkert stórveldi að rífast við Bandaríkin lengur og nánast sú tilfinning í loftinu að "alvöru" óvin vantaði. Miller kom því með ágætis ábendingu og umhugsunarefni. Hvað ef versti óvinur Bandaríkjanna væru Bandaríkin sjálf?

Nú, hvað eru Bandaríkin annað en margmenningarlegur hrærigrautur komið fyrir undir einum hatti? Þetta fyrirkomulag gæti alveg eins brotnað upp í einingar sínar, alveg eins og í Júgóslavíu, Sovétríkjunum eða bara eins og gerðist í Bandaríkjunum á tímum borgarastyrjaldarinnar.

Þetta gerist í bókinni Give Me Liberty, Bandaríkin skiptast í nokkra hluta. Miller er ekkert feiminn við að skiptinguna, og bendir oft harkalega á hverjir það eru í raun og veru sem hafa völd innan þjóðfélagsins.

Hér er að finna nokkrar framúrskarandi hugmyndir. Skæruliðaher indíána sem er staðráðinn í því að vinna landið sem hirt var af þeim fyrir svo mörgum árum aftur, með valdi. Her í eigu einnar stærstu skyndibitakeðju Bandaríkjanna, sem er staðráðinn í því að verja sína hagsmuni fyrir ólíkum skoðunum valdamanna þjóðarinnar. Þjóð kvenmanna, stofnuð af fyrrverandi forsetafrú sem er staðráðin í því að brjóta kvenþjóðina frá oki karlpeningsins í eitt skipti fyrir öll. Helstu rök þeirra er að öll verstu mistök mannkynssögunnar hafa verið ákvarðanir teknar af karlmönnum, nú skuli skynsemin ráða og kvenmennirnir taka við. Herinn tekur upp þá nýju reglu að ef afbrotamenn skrái sig verði skráin sem geymir afbrotaferil þeirra þurrkuð út.

Persónueiginleikar söguhetju okkar eru svo greinilega skapaðir sem sameiningartákn. Ung svört stúlka, sem alin upp í glæpahverfi sem þjóðfélagið hefur girt af og mönnum meinaður aðgangur inn eða út. Hún lendir í hræðilegri lífsreynslu tólf ára gömul, álagið verður of mikið og hún er send á geðveikrahæli. Kosturinn við það er sá að þá er hún komin út úr "fangelsinu" sem þjóðfélagið hafði skapað henni. Hún jafnar sig fljótlega, áttar sig á aðstæðum og notar ofbeldi sem leið til þess að flýja aðstæður sínar. Plöguð af samviskubiti skráir hún sig svo í herinn til þess að byrja líf sitt upp á nýtt. Hún verður fyrirmyndar hermaður en lendir fljótlega í undarlegri valdabaráttu við illan valdaníðing sem er staðráðinn í því að komast til æðstu valda, sama hvað hann þurfi að gera til þess.

Það er því eins gott að athyglisgáfan sé til staðar við lestur þessarar bókar. Rammarnir eru stundum hlaðnir upplýsingum og söguframvindan mjög hröð. Miller hefur þó eitthvað að segja og vel þess virði að hlusta á manninn. Lifið heil og verið vakandi.