Helga Vala Helgadóttir leikstjóri, Sigurður Sævarsson tónskáld, Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, Jóhanna Linnett söngkona, Ingveldur Ýr Jónsdóttir söngkona og Bryndís Jónsdóttir söngkona að sýningu lokinni.
Helga Vala Helgadóttir leikstjóri, Sigurður Sævarsson tónskáld, Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, Jóhanna Linnett söngkona, Ingveldur Ýr Jónsdóttir söngkona og Bryndís Jónsdóttir söngkona að sýningu lokinni.
Z-ástarsaga (frumfl.) eftir Sigurð Sævarsson við samnefnda bók Vigdísar Grímsdóttur. Ingveldur Ýr Jónsdóttir (Anna), Jóhanna Guðríður Linnet (Z), Bryndís Jónsdóttir (Arnþrúður). Jónas Sen, Baldur Þ. Guðmundsson, Helga Laufey Finnbogadóttir, Vilhelmína Ólafsdóttir og Elín Halldórsdóttir, hljómborð. Leikstjóri: Helga Vala Helgadóttir. Hljómsveitarstjóri: Sigurður Sævarsson. Laugardagurinn 1. september kl. 20.

LJÓTASTA "óperuhús" Norðurlanda, og sennilega þótt víðar væri leitað, hefur margur ugglaust hugsað í hljóði er hann gekk í turnháa yfirbyggingu Dráttarbrautarinnar í Keflavík. Og vissulega þarf engu minna en ímyndunarafl tónlistarmanna til að sjá fyrir sér sönghof er siðuðu fólki væri bjóðandi, meðan flest innan stokks er enn í sinni upphaflegu mynd. En hví ekki gera andlegt brauð úr jarðneskum dauða íslenzks skipasmíðaiðnaðar með slíkum hætti? Stærðin ein gefur mikla möguleika, hljómburðurinn er merkilega góður að óbreyttu, og ætti að vera leikur einn að færa upp heilan Niflungahring með 100 manna hljómsveit og annað eins í kór, ef aðeins tekst að mana fram fé til launa, og þyrftu þó ekki að vera í neinni líkingu við toppstöður í hérlendum fjármálafyrirtækjum.

Hinn ársgamli félagsskapur Norðuróp stóð umrætt kvöld að frumflutningi nýrrar íslenzkrar kammeróperu eftir Sigurð Sævarsson í fjórum samtengdum þáttum við styttan texta úr nýlegri skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur. Uppfærslan var liður í óperuhátíð í Reykjanesbæ, og í tónleikaskrá segir bróðir tónskáldsins og listrænn stjórnandi Norðuróps, Jóhann Smári Sævarsson óperusöngvari, tilganginn vera að taka þátt í að skapa ríkari óperuhefð á Íslandi og jafnframt gefa broti af fjölda velmenntaðra íslenzkra söngvara tækifæri til að koma fram og vaxa á heimaslóð. Sem sé hið virðingarverðasta markmið, enda væru varla tugir íslenzkra óperusöngvara í fullu starfi á erlendum fjölum, gæfust næg verkefni hér á landi. Hann nefnir ekki þarfir hljóðfæraleikara, og e.t.v. að fyrirsynju, enda kannski ekki jafnbrýnar í samanburði, en einmitt þar liggur fjárhundurinn grafinn. Má því kalla hálfgert kólumbusaregg að kokka 50 manna "hljómsveit" niður í hljómborðskvintett eins og hér var gert, þar sem einn hljóðgervill var í hlutverki píanós, tveir komu í stað strengjasveitar og hinir tveir löðuðu fram óma blásara og slagverks. Hvort þetta er það sem koma skal í íslenzkum óperum er ekki gott að segja. En minna má á þá hefð fyrri kynslóða, meðan heimilistónlistariðkun stóð í blóma, að semja fyrst fyrir fjórhent píanó og útsetja síðar fyrir hljómsveit. Mætti e.t.v. kalla umræddan tóngervlakvintett nokkurs konar nútímatilbrigði við það. Hitt er svo aftur annað mál hvort ekki ætti að stíga skrefið til fulls og hreinlega frumsemja fyrir þá nýju hljómrænu möguleika sem hljóðgervillinn býður upp á, í stað þess eingöngu að nota hann sem neyðarígildi hefðbundinnar hljómsveitar. Því þó að "sömplunartækni" nútímans fleygi stöðugt fram, er enn verulegur munur á gervihljómi blásara og (sérstaklega) strengja og hinni raunverulegu vöru. Vill sá munur ágerast í hlustun eftir því sem lengra líður. Þessa varð einnig smám saman vart í óperu Sigurðar, enda rithátturinn mest á líðandi nótum "milli svefns og vöku" eins og tónskáldið orðar það. Þó að margt kæmi furðuvel út, umfram allt píanóklingið úr nettum höndum Jónasar Sen, varð gervilegt dósahljóðið úr strengjavélunum í mínum eyrum að firrandi plastmúr áður en lauk, ekki sízt fyrir þá sök að það átti að líkjast alvörustrengjum án þess að takast það nema að hluta. Á hinn bóginn er allsendis óvíst hvort kazoo-kennt strengja "sándið" hafi verkað jafnneikvætt á áheyrendur sem lítt eða ekki voru vanir fornaldarhljómi fyrirmyndarinnar, enda má vera að vandinn verði endanlega fyrir bí í framtíðinni, eigi gamaldags sinfóníuhljómsveitir eftir að hverfa af yfirborði jarðar.

Það bezta sem sagt verður um tónlistina í heild er hvað hún var tiltölulega einföld og stílhrein. Helgaðist fábreytni tónmálsins eflaust mikið til af depurð söguefnisins - forboðinni ást, banvænum sjúkdómi og sjálfsmorði, þar sem aðeins endalokin gáfu tilefni til einhvers í líkingu við dramatísk tilþrif með jafnframt eina söngdúetti verksins. Fram að þeim punkti var býsna fátt í textanum sem höfðaði til undirritaðs, kannski sumpart fyrir hvað söngritið virtist mótað af sérreynsluheimi kvenna. Tónmálið var víða áferðarfalleg blanda af léttimpressjónískum mínímalisma án verulegra stílrænna útúrdúra, sem ljáði verkinu samfelldan heildarsvip með einskonar stöðugum en samt gegnsæjum söngles- eða "arioso" rithætti er ávallt hleypti textanum í fyrirrúm. Hljómaferlið var kliðmjúkt og áheyrilegt, jafnvel stundum ofurlítið poppskotið svo minnti á nýlega óperusöngleiki Broadways, án þess þó að reiða sig á klissjur. Látlausar og eðlilegar sönglínurnar báru sömuleiðis með sér að söngvari hefði haldið um nótnapennann, þrátt fyrir einstaka misfrösun svo sem rangáherzlu á endaatkvæði orða. En styrkleiki stílheildar var jafnframt helzti veikleiki óperunnar. Sérstaklega gagnvart athygli hlustandans, hafi sá mætt í öðrum tilgangi en að láta smám saman svæfast af harmi, eftirsjá og verkjastillandi barbítúratadoða. Látum vera að hvergi gætti eiginlegra sönglaga eða aría. En að tónlistin skyldi þurfa að vera nánast í sama tempói og styrk út í gegn, og gjörsneydd kontrapunktískum tilþrifum í þokkabót, var svolítið ofvaxið mínum skilningi, jafnvel þegar takmarkanir söguefnis eru hafðar í huga. Sérstaklega þó í millispilunum á milli þátta, þar sem ætla mætti að ráðrúm hefði verið til aðeins meiri sviptinga í fjarveru söngtexta. Þess í stað var hið dáleiðandi svif milli svefns og vöku þar fært í æðsta veldi með stundum nærri því kvalafullu ítrekunarhjakki á sama ofurblíða hljómamynztri, eða hátt í 30 endurtekningar í tveimur millispilanna. Gefist vilji og tækifæri til endurskoðunar, mætti gefa þessu sérstakan gaum - og kannski sníða 15-20% af heildarlengd verksins í leiðinni.

Þrátt fyrir fremur kyrrstæðan blæ tókst höfundi og flytjendum engu að síður að ná fram þónokkrum áferðarfallegum augnablikum. Dúett Zetu og Önnu í síðasta þætti markaði sem fyrr segir nánast eina dramatíska hápunkt verksins, en ljóðrænt niðurlag óperunnar, þar sem hverfult lífið fjarar út í tóman fimmundarhljóm á ítrekuðum öfugum þrílið ("IT" skv. Morse-stafrófinu; skírskotun til upplýsingatækninnar?) var einnig áhrifamikið. Stærsta hlutverkið var frábærlega vel sungið af Ingveldi Ýri Jónsdóttur, sem var eins og sniðin fyrir hina fárveiku en skáldmæltu Önnu og skilaði sársauka persónunnar og örlagaríkri yfirvegun á úrslitastundu ekki aðeins trúverðuglega, heldur svo skýrt að heyra mátti hvert orð út í yztu kima gímaldsins. Mikið mæddi einnig á Zetu, og þó að valkyrjurödd Jóhönnu Guðríðar Linnet hefði eflaust notið sín meir í dramatískara hlutverki, fór hún með persónuna af innlifun og samúð. Arnþrúður var í samanburði varla mikið meira en "cameo" hlutverk, en Bryndís Jónsdóttir náði samt að mynda sannfærandi mótvægi saklausrar æsku við harm hinna fullþroska ástkvenna.

Hljómborðsleikararnir stóðu vel fyrir sínu í samtaka leik undir stjórn höfundar (að vísu með dulítilli aðstoð tækninnar eins og "tónraðalykkjum"), þó að fæstar raddir útheimtu mikla fingrafimi. Annað hefði án efa kostað þrotlausar samæfingar, eins og jafnvel sjóuðustu konsertpíanistar hafa reynt þá sjaldan þeir leggja í vandasömustu tvíleiksgrein sem til er, nefnilega píanódúóið. Er þar hugsanlega komin hagnýt aukaskýring á hægferðugu viðmóti óperunnar.

Ríkarður Ö. Pálsson